Fótbolti

„Mjög svekkjandi að fá þetta leiðinda­mark á sig“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Arnór Ingvi lét Bruno Fernandes hafa fyrir hlutunum í kvöld.
Arnór Ingvi lét Bruno Fernandes hafa fyrir hlutunum í kvöld. Vísir/Hulda Margrét

„Mjög svekkjandi, fannst við eiga gífurlega flottan leik. Fylgdum leikplaninu alveg í gegn. Mjög svekkjandi að fá þetta leiðindamark á sig,“ sagði miðjumaðurinn Arnór Ingvi Traustason eftir súrt 0-1 tap Íslands gegn Portúgal í undankeppni EM 2024 í kvöld.

Ísland stóð sig frábærlega gegn ógnarsterku liði Portúgals á Laugardalsvelli í kvöld. Eina markið leit dagsins ljós í uppbótartíma þegar Cristiano Ronaldo skoraði í sínum 200. A-landsleik fyrir Portúgals.

Arnór Ingvi var út um allt.Vísir/Hulda Margrét

„Fannst þeir ekki skapa nokkurn skapaðan hlut. Þeir ýttu okkur neðar en fannst við vera þéttir og fannst þeir aldrei vera hættulegir. Leyfðum þeim að hafa boltann fyrir framan okkur og það var ekki mikið um opnanir,“ sagði Arnór Ingvi en hann og Jóhann Berg Guðmundsson stóðu vaktina á miðju Íslands í kvöld.

Arnór Ingvi spilaði svipaða stöðu í 0-3 tapinu gegn Bosníu-Hersegóvínu í fyrsta leik undankeppninnar. Hann var spurður út í muninn á liðinu þá og nú.

„Erfitt að setja punkt á hvað er búið að breytast. Það kemur nýr maður í brúnna og menn vilja sýna sig eins og gerist þegar nýr þjálfari kemur inn.“

Erum að halda í okkar leikplan sem hann [Åge Hareide, landsliðsþjálfari] er búinn að leggja upp og menn fylgja því alveg í gegn.“

Arnór Ingvi var allstaðar í kvöld.Vísir/Vilhelm

Tvær fínar frammistöður gegn Slóvakíu og Portúgal en því miður núll stig í hús.

„Heppnin þarf að fara falla okkar megin, gerist vonandi í næsta verkefni. Svekkjandi að fá núll stig í þessu verkefni. Getum tekið það úr þessu að hafa spilað tvo flotta leiki, það er eitthvað til að byggja á,“ sagði Arnór Ingvi að lokum.

Klippa: Arnór Ingvi - Viðtal

Tengdar fréttir

Valgeir: Gæti hafa verið rangstaða

„Ég held að svekkelsið gæti ekki verið meira, að fá þetta svona í andlitið á 90. mínútu eftir alla þessa vinnu á móti þessu liði. Þetta er gríðarlega svekkjandi,“ sagði Valgeir Lunddal Friðriksson eftir tapið gegn Portúgal í kvöld.

Albert: Finnst við vera að byggja eitthvað

Albert Guðmundsson var svekktur en samt nokkuð ánægður með frammistöðu íslenska liðsins gegn Portúgal í kvöld. Hann segir hægt að byggja á frammistöðu liðsins í þessum landsliðsglugga.

Kennir Willum og Herði ekki um: „Portúgalinn oflék þetta“

Åge Hareide segir það ekki hafa verið Herði Björgvini Magnússyni að kenna að Portúgalar skyldu sleppa við rangstöðu í markinu gegn Íslandi í kvöld, og að Willum Þór Willumsson hafi ekki verðskuldað rauða spjaldið sem hann fékk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×