Fótbolti

Viður­kennir að hafa verið þunnur á lands­lið­s­æfingunum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Þeir voru líklega fáir sem tóku fagnaðarlátunum jafn alvarlega og Jack Grealish.
Þeir voru líklega fáir sem tóku fagnaðarlátunum jafn alvarlega og Jack Grealish. Isaac Parkin - MCFC/Manchester City FC via Getty Images

Jack Grealish, leikmaður Englandsmeistara Manchester City og enska landsliðsins, viðurkennir að hann hafi verið aðeins þunnur þegar hann mætti á landsliðsæfingar eftir að hafa fagnað sigri í Meistaradeild Evrópu með félagsliði sínu.

Mikið var rætt og ritað um Grealish eftir að Manchester City tryggði sér sigur í Meistaradeild Evrópu. Liðið var ekki bara að fagna Meistaradeildarsigrinum, heldur einnig því að hafa unnið þrennuna. Liðið varð Englandsmeistari, Evrópumeistari og ensku bikarmeistari á tímabilinu, eitthvað sem aðeins Manchester United hafði tekist áður.

Eins og gefur að skilja leyfðu leikmenn City sér því að fagna áfanganum með stæl. Þó voru fáir, ef einhverjir, sem tóku fagnaðarlátunum jafn alvarlega og Jack Grealish.

Leikmenn fengu þó ekki of langan tíma til að fagna titlunum því aðeins nokkrum dögum eftir að Evróputitillinn var í höfn var komið að landsleikjum. Grealish var mættur í enska hópinn sem vann báða leiki sína í þessum landsleikjaglugga, 4-0 sigur gegn Möltu síðastliðinn föstudag og 7-0 sigur gegn Norður-Makedóníu á mánudag. Hann segist þó í samtali við Sky Sports hafa fundið fyrir átökum undanfarinna daga þegar hann kom til móts við landsliðið.

„Ég á í alvöru frábært samband við Gareth Southgate [þjálfara enska landsliðsins]. Frábært samband. Ég vissi nokkurnveginn að ég væri ekki að fara að spila á móti Möltu á föstudeginum. Ég kom til móts við landsliðið á þriðjudeginum og var enn aðeins þunnur, en ekki fullur eða neitt svoleiðis,“ sagði Grealish.


Tengdar fréttir

Utan vallar: Mann­legur Greal­ish ber af hjá Evrópu­meisturunum

Jack Grealish var ekki meðal þeirra sjö leikmanna Manchester City sem komst í lið ársins í Meistaradeild Evrópu. Það er samt eitthvað svo mannlegt við Grealish að það er ekki annað hægt en að líka vel við hann, þó þú haldir með rauða liðinu í Manchester-borg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×