Í gær bárust fréttir af því að Íslandsbanki hefði þegið boð fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands um að ljúka málinu um útboð á hlutum bankans með sátt. Bankinn gengst þar við alvarlegum brotum sínum og mun greiða rúman milljarð í sekt.
Þrátt fyrir það hækkaði bankinn afkomuspár sínar.
Geta ekki lagt mat á annmarka
Bankaskýrslan segir í tilkynningu að athugun fjármálaeftirlitsins, sem hófst í apríl 2022, beinist að hlutverki Íslandsbanka í útboðinu en ekki framkvæmd Bankasýslu ríkisins. Bankasýsla ríkisins hafði enga aðkomu að sáttinni og var ekki sérstaklega upplýst um framvindu sáttaumleitana.
Í tilkynningu Bankasýslunnar segir að hún geti ekki lagt sjálfstætt mat á þá annmarka sem kunna að vera á vinnu Íslandsbanka í tengslum við útboð þar sem sáttin hefur ekki enn verið birt.
Þegar sáttin verður birt muni Bankasýslan yfirfara hana og leggja mat á hvort tilefni sé til ráðstafana af hálfu stofnunarinnar. Annars vegar í ljósi þess samningssambands sem var á milli Bankasýslu ríkisins og fyrirtækjaráðgjafar og verðbréfmiðlunar Íslandsbanka í tengslum við útboðið. Hins vegar í ljósi eigandahlutverks stofnunarinnar, en hún heldur á 42,5 prósenta hlut í bankanum eftir útboði.