Það hefur verið frekar illa geymt leyndarmál að hinn króatíski Mateo Kovacic sé á leið til Englands- og Evrópumeistara Manchester City. Hann hefur verið orðaður við félagið síðustu vikurnar og í raun aðeins talið formsatriði að klára félagaskiptin.
Nú eru öll formsatriði klár. Manchester City staðfesti komu Kovacic á samfélagsmiðum seinni partinn í dag en hann kemur til liðsins frá Chelsea þar sem hann hefur leikið síðan árið 2019.
Welcome, Mateo! pic.twitter.com/qlGd4DtqwI
— Manchester City (@ManCity) June 27, 2023
Kovacic hefur verið lykilmaður í króatíska landsliðinu síðustu ár og vann bronsverðlaun með liðinu á heimsmeistaramótinu í Katar í lok síðasta árs sem og silfurverðlaun á mótinu í Rússlandið árið 2018.
City greiðir 25 milljónir punda fyrir Kovacic en kaupverðið gætti hækkað í 30 milljónir sé ákveðnum skilyrðum mætt.
„Allir sem hafa fylgist með þessu liði undir stjórn Pep vita hversu gott það er. Fyrir mér er þetta besta lið í heimi. Það er augljóst ef þú skoðar hvaða bikara liðið hefur unnið en þeir eru einnig besta fótboltaliðið,“ sagði Kovacic í viðtali sem birtist á Twittersíðu Manchester City nú síðdegis.
Mateo's first words as a City player!
— Manchester City (@ManCity) June 27, 2023
Yfirmaður knattspyrnumála hjá City, hinn spænski Txiki Begiristain var ánægður með kaup félagsins.
„Hann getur spilað sem sexa eða sem átta og er með mikla reynslu á hæsta getustigi auk þess að þekkja ensku úrvalsdeildina. Það var mjög einföld ákvörðun að fá hann til City því hann er með taktísku og tæknilegu getuna sem við erum að leita að í miðjumanni.“
„Við höfum fylgst með honum í langan tíma og höfum dáðst að honum í hvert skipti sem við höfum séð hann. Ég er gríðarlega ánægður með að hann sé kominn hingað.“