Viðskipti innlent

Veru mathöll lokað

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Vera opnaði í ágústmánuði á síðasta ári.
Vera opnaði í ágústmánuði á síðasta ári. vísir/vilhelm

Veru mathöll, sem rekin hefur verið í Grósku í Vatnsmýri í Reykjavík, verður lokað á laugardaginn 1. júlí.

Frá þessu greinir veitingastaðurinn Stund, sem opnaði samhliða mathöllinni, í tilkynningu á Instagram.

„Vera Mathöll lokar 1. júlí og ófyrirséð er hvenær opnað verður aftur,“ segir í tilkynningunni. Í ljósi óvissu um opnun mathallarinnar, verði staðurinn því að leita á önnur mið. „Hlökkum við til að taka á móti ykkur öllum á nýjum og betri stað,“ segir enn fremur.

Greint var frá því í síðustu viku að meirihluti veitingastaða Veru hefði lagt upp laupana. Framkvæmdastjóri Grósku, Vera Antonsdóttir, sagði hins vegar veru Veru vera trygga, eftirminnilega.

Sjá einnig: Vera segir veru Veru vera trygga

Svo virðist hins vegar ekki hafa verið. Ekki hefur náðst í eiganda mathallarinnar, Björn Braga Arnarsson, en Vera Antons sagði að á döfinni væru breytingar og endurskipulagning. Ekki væru áætlanir um að mathöllin hverfi úr húsinu.  

Vera opnaði dyrnar í ágúst í fyrra og voru þá átta veitinga­staðir með rekstur. Fimm þeirra var lokað áður en ákvörðun um að loka mathöllinni var tekin.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×