Enski boltinn

Knatt­­­spyrnu­­­stjarna og rappari kaupa hverfis­­­fé­lagið sitt í London

Smári Jökull Jónsson skrifar
Wilfried Zaha og rapparinn Stormzy hafa fest kaup á knattspyrnufélaginu AFC Croydon.
Wilfried Zaha og rapparinn Stormzy hafa fest kaup á knattspyrnufélaginu AFC Croydon. Vísir/Getty

Knattspyrnuleikmaðurinn Wilfried Zaha og breski rapparinn Stormzy hafa fest kaup á knattspyrnufélaginu AFC Croydon Athletic og ætla að reka það í sameiningu.

Það vakti mikla athygli þegar Hollywood-stjörnurnar Ryan Reynolds og Rob McElhenney festu kaup á knattspyrnufélaginu Wrexham árið 2020. Félagið vann sig upp í League 2 deildina nú í vor og batt þar með enda á fimmtán ára veru sína í ensku utandeildinni.

Nú ætla fleiri þekktir aðilar að feta svipaðar slóðir. Knattspyrnuleikmaðurinn Wilfried Zaha, sem leikur með Crystal Palace í ensku úrvalsdeildinni, og breski rapparinn Stormzy hafa ásamt félaga sínum Danny Young fest kaup á knattspyrnufélaginu AFC Croydon Athletic og ætla að reka það í sameiningu.

Zaha og Stormzy ólust upp í Croydon-hverfinu í London og í yfirlýsingu félagsins segir að þeir félagar séu spenntir að búa til samfélagslega eign í hverfinu sem færði þeim sjálfur sín tækifæri.

„Þeir vonast til að taka samfélagið allt með í þetta spennandi ferðalag þeirra,“ segir ennfremur í yfirlýsingunni.

AFC Croydon Athletic var stofnað árið 2012 af stuðningsmönnum FC Croydon Athletic sem stofnað var árið 1986 undir nafninu Wandsworth & Norwood. Nafninu var breytt í FC Croydon Athletic árið 1990 en félagið fór á hausinn árið 2012. Stuðningsmenn þess stofnuðu þá nýtt félag með nánast sama nafni. Félagið leikur í níundu efstu deild á Englandi.

Framtíð Zaha í ensku úrvalsdeildinni er í óvissu en samkvæmt The Guardian er samningur á borðinu frá Crystal Palace sem myndi færa honum tæpar 35 milljónir króna í vikulaun. Stormzy er fyrst og fremst vinsæll á Bretlandseyjum en hann er með 9,3 milljónir hlustenda á mánuði á Spotify.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×