Enski boltinn

Arsenal búið að bjóða meira en hundrað milljónir punda í Rice

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Declan Rice hefur að öllum líkindum spilað sinn síðasta leik fyrir West Ham.
Declan Rice hefur að öllum líkindum spilað sinn síðasta leik fyrir West Ham. Getty/Rob Newell

Arsenal ætla ekki að missa af enska landsliðsmanninum Declan Rice ekki síst þar sem Manchester City er líka farið að bjóða í þennan öfluga miðjumann West Ham.

West Ham hafnaði níutíu milljón punda tilboði City í leikmanninn í gær og nú berast fréttir af nýju tilboði frá Arsenal.

Sky Sports segir frá því að Arsenal hafi sent inn sitt þriðja tilboð og nú séu menn þar á bæ tilbúnir að borga meira en hundrað milljónir punda fyrir Rice eða meira en sautján milljarða íslenskra króna.

Heimildir Sky Sports herma að Arsenal ætli að borga hundrað milljónir punda strax og svo gætu mögulega bæst við fimm milljónir í bónusgreiðslur. Hann gæti því kostað Arsenal 105 milljónir punda eða 18,2 milljarða íslenskra króna.

Taki West Ham þessu tilboði þá myndi Arsenal rústa metinu yfir dýrasta leikmanninn í sögu félagsins.

Metið er eins og er 72 milljónirnar sem félagið borgaði Lille fyrir Nicolas Pepe árið 2019.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×