Neytendur

Borist á­bendingar um tug­milljóna króna svik vegna inn­flutnings á húsum

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, hvetur neytendur til að tilkynna slík mál til lögreglu. Mikilvægt sé að vera á varðbergi.
Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, hvetur neytendur til að tilkynna slík mál til lögreglu. Mikilvægt sé að vera á varðbergi. Vísir/Sigurjón

Neytendasamtökunum hefur borist ábending um að tugir milljóna hafi verið sviknar út úr sex­tán manns af ís­lenskum aðila sem gefur sig út fyrir að flytja inn og selja hús frá Austur-Evrópu. For­maður Neyt­enda­sam­takanna segir sam­tökin hafi fengið ábendingu um málið en geti lítið gert í slíkum málum annað en að vísa þeim til lög­reglu.

Norð­lenski frétta­vefurinn Trölli gerir málinu skil og ræðir við Árna Björn Björns­son íbúa á Sauð­ár­króki sem er einn þeirra sem pantaði hús hjá við­komandi aðila. Hann átti að fá húsið af­hent í desember en hefur ekkert hús fengið.

Kemur fram á Trölla.is að sölu­aðilinn beri fyrir sig af­sakanir og skýringar sem ekki hafi staðist. Þannig hafi fé­lagi Árna Björns úr Skaga­firði lagt land undir fót í Lett­landi til þess að skoða húsið sem pantað var í verk­smiðjunni. Ekkert hús var þar í smíðum.

Þá segir Árni að hann hafi haft af­spurn af fimm­tán manns sem séu í sömu stöðu og hann sem ekki hafa fengið hús sitt af­hent. Um sé að ræða van­skil upp á 88 milljónir króna hið minnsta. Árni varar sjálfur við svika­starf­seminni á Face­book og birtir lista yfir Face­book síður þar sem boðið er upp á að kaupa slík hús.

Ein þeirra er merkt Smart modular Ís­land og er Kletta­tröð 2 í Kefla­vík gefið upp sem heimilis­fang og ís­lenskt síma­númer fylgir. Vísir hringdi í númerið fyrir klukkan 10:00 í morgun og fékk fyrst upp að um timbursölu væri að ræða sem myndi opna klukkan 10:00. Eftir klukkan 10:00 eru hringj­endur látnir vita að slökkt sé á símanum.

Neyt­enda­sam­tökin muni fylgjast með

Breki Karls­son, for­maður Neyt­enda­sam­takanna, stað­festir í sam­tali við Vísi að sam­tökin hafi fengið á­bendingu vegna málsins í síðustu viku.

„Það er ekkert í rauninni sem við getum gert í svona málum nema vísa þeim til lög­reglunnar. Þetta lítur út fyrir að vera svika­mál af frétta­flutningi að dæma.“

Hann segir að miðað við frétta­flutning af málinu líti út fyrir að um sé að ræða stór­fellda svika­starf­semi.  „Miðað við það að við­komandi hefur kannað þetta hjá fram­leiðandanum úti sem ekkert hefur kannast við, að þá virðist þetta vera stór­alvar­legt mál og í rauninni bara lög­reglu­mál.

Breki segir fólk sem lendi í slíkum svikum vera í gríðar­lega erfiðri stöðu. Mikil­vægt sé að hafa sam­band við lög­reglu. Hann segir Neytendasamtökin muni fylgjast áfram með málinu.

„Auð­vitað er auð­velt að vera vitur eftir á en fyrir fram er gott að líta til sögu fyrir­tækjanna, þar sem orð­spor skiptir gríðar­legu máli og fá stað­festingu á því að fyrir­tækið sé raun­veru­lega í við­skiptum við er­lendan aðila líkt og það full­yrðir, af því að þarna eru náttúru­lega um svaka­legar upp­hæðir að ræða.“

Breki tekur fram að allir séu þannig úr garði gerðir að þeir vilji treysta fólki. Því miður séu ýmsir ó­prúttnir aðilar sem geri út á slíkt traust.

„Og þess vegna þurfum við að fara var­lega og stað­festa fyrir­fram áður en við greiðum fyrir vörur, að það sé raun­veru­legt við­skipta­sam­band milli meints um­boðs­aðila hér og fyrir­tækisins er­lendis sem fram­leiðir húsin.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×