Umfjöllun og viðtöl: FH - Víkingur 1-2 | Sextán ára Sigdís leiddi Víkinga í sinn fyrsta úrslitaleik

Sindri Sverrisson skrifar
Víkingar fögnuðu ákaft í leikslok í Kaplakrika.
Víkingar fögnuðu ákaft í leikslok í Kaplakrika. VÍSIR/HULDA MARGRÉT

Víkingskonur, sem spila í næstefstu deild, héldu bikarævintýri sínu áfram í Kaplakrika í kvöld þegar þær slógu sjóðheitt lið FH-inga út í undanúrslitum Mjólkurbikarsins, 2-1.

Víkingar spila því bikarúrslitaleik kvenna í fyrsta sinn og mæta þar sigurliðinu úr leik Breiðabliks og Stjörnunnar sem fram fer á morgun.

Hin 16 ára gamla Sigdís Eva Bárðardóttir var hetja Víkingsliðsins en hún skoraði bæði mörk liðsins, í seinni hálfleik.

Sigdís Eva Bárðardóttir var frábær fyrir Víkinga í kvöld og skoraði bæði mörk liðsins.VÍSIR/HULDA MARGRÉT

FH-ingar voru mikið sterkari í fyrri hálfleik, sérstaklega framan af, og það kom því ekki á óvart þegar Valgerður Ósk Valsdóttir náði að koma boltanum í netið með skalla eftir frábæra hornspyrnu Sunnevu Hrannar Sigurvinsdóttur.

Markið var hins vegar réttilega dæmt af þar sem að Valgerður keyrði inn í bakið á Kolbrúnu Tinnu Eyjólfsdóttur áður en hún skallaði boltann.

Mackenzie George, sem verið hefur mögnuð fyrir FH-inga í sumar, var Víkingum að sjálfsögðu erfið og geystist ítrekað inn í teiginn af kantinum, en skot hennar hittu ekki í markið í kvöld.

Víkingar hafa aldrei spilað til úrslita í bikarkeppni kvenna áður.VÍSIR/HULDA MARGRÉT

Hjá Víkingum var lengi vel lítið af brauðmolum fyrir fyrirliðann Nadíu Atladóttur að elta í fremstu víglínu en eftir því sem leið á fyrri hálfleikinn sköpuðust þó möguleikar fyrir 1. deildarliðið sem í tvígang vantaði aðeins hársbreidd upp á að búa sér til dauðafæri.

FH-liðið stjórnaði samt ferðinni og Víkingar gátu þakkað markverðinum unga, hinni 17 ára Sigurborgu Kötlu Sveinbjörnsdóttur, fyrir að markalaust væri í leikhléi en hún varði frábærlega skalla Vigdísar Eddu Friðriksdóttur úr dauðafæri.

Vonbrigðin leyndu sér ekki í andlitum FH-inga sem hafa átt stórkostlegt sumar.VÍSIR/HULDA MARGRÉT

Leikurinn var mun jafnari í seinni hálfleik og þegar tíu mínútur voru liðnar af honum komust Víkingar yfir. Aldís Guðlaugsdóttir gerðist sek um slæm mistök í marki FH þegar hún missti fyrirgjöf frá sér og Sigdís Eva var eins og reyndasti markaskorari á fjærstöng, tilbúin að skila boltanum í netið.

FH náði hins vegar fljótlega að jafna metin og það var að mestu Mackenzie að þakka en hún vann sig framhjá Kolbrúnu Tinnu Eyjólfsdóttur sem braut á henni innan teigs. Hildigunnur Ýr Benediktsdóttir skoraði af öryggi úr vítaspyrnunni og Hafnfirðingar gátu andað léttar.

Sigdís Eva Bárðardóttir var frábær í liði Víkings í kvöld og skoraði bæði mörk liðsins.VÍSIR/HULDA MARGRÉT

FH-liðið virtist svo líklegra til að tryggja sér sigurinn í venjulegum leiktíma en Sigdís Eva var á öðru máli og skoraði sitt annað mark þegar örfáar mínútur voru eftir af leiknum, með frábærum skalla eftir að hafa aftur verið mætt nærri fjærstönginni þegar boltinn barst af hægri kantinum. Í þetta sinn var fyrirgjöfin frá Emmu Steinsen Jónsdóttur en Dagný Rún Pétursdóttir hafði lagt upp fyrra markið.

FH gekk illa að skapa sér færi eftir þetta enda tíminn naumur, og liðið saknaði sárt Shaina Ashouri sem kom sér í leikbann í leiknum við ÍBV í 8-liða úrslitum.

Víkingar fögnuðu að lokum ævintýralegum sigri, sögulegum eins og fyrr segir, og hver veit nema að 1. deildarlið verði krýnt bikarmeistari í fótbolta 2023? Í veginum stendur þó enn stórt ljón, hvort sem það verður Stjarnan eða Breiðablik, en Víkingar vita alla vega hvað er á þeirra dagskrá 12. ágúst.

Himinlifandi John Andrews hugsaði til pabba síns

Sigurreifur John Andrews, þjálfari Víkinga, glotti enn meira þegar hann var spurður hvað tæki við núna. Á Víkingur möguleika á að verða bikarmeistari?

„Come on. Við áttum ekki séns í dag og við unnum samt. Ég skal segja þér nokkuð. Ég myndi ekki veðja á móti okkur,“ sagði Andrews sem hefur stýrt Víkingsliðinu frá árinu 2020 og er á hárréttri leið með það, á toppi Lengjudeildarinnar og á leið í bikarúrslitaleikinn sjálfan:

„Ég er himinlifandi en ég verð að viðurkenna að tilfinningarnar eru svolítið að hellast yfir mig, því pabbi minn hefði elskað þetta. Hann dó fyrir fáeinum árum en hann hefði dýrkað þetta. Hann var mjög stoltur af mér og hefði hann séð liðið spila svona, með svona miklu hjarta, þá hefði hann verið afar stoltur rétt eins og við erum öll núna.

Þetta er stórkostlegt. Ég vildi bara að þetta hefði verið aðeins auðveldara. FH er afar gott lið með frábæra þjálfara, frábært félag. Stúkan var full hjá báðum liðum og þetta var bara ótrúlegt.

Leikurinn var bara klikkaður. Það kom ekki ein mínúta þar sem við þjálfararnir gátum sest niður. Ég er örugglega ekkert minna þreyttur en leikmennirnir. Það er heiður að fara með liðinu í bikarúrslitaleikinn í fyrsta sinn,“ sagði Andrews.

John Andrews, þjálfari Víkinga, og Þorsteinn Magnússon aðstoðarmaður hans voru glaðbeittir í leikslok.VÍSIR/HULDA MARGRÉT

„Sigdís er ótrúleg“

FH var mun sterkari aðilinn fyrstu tuttugu mínútur leiksins en eftir það jafnaðist leikurinn og virtist hreinlega fara eftir handriti Víkinga:

„Við vorum ekki með neitt handrit. Við höfðum ekki tíma til þess, því við spiluðum gegn HK fyrir svo stuttu síðan. Við ákváðum bara að hafa trú á þessu, spila með okkar hætti. FH er með mikil gæði en við vissum líka að við hefðum okkar gæði. Þessir krakkar eru ótrúlegir, og eldri leikmennirnir ekki slæmir heldur,“ sagði Andrews sem var beðinn um að tjá sig aðeins um markaskorara Víkinga, Sigdísi:

„Sigdís er ótrúleg, með magnað hugarfar. Hrós á hana, hennar fjölskyldu og félagið, og svo er hún á leið á EM með U19-landsliðinu. Við gætum ekki verið stoltari af henni, Bergdísi [Sveindsóttur] og öllum hinum ungu leikmönnunum. Við lukum leiknum með eina fimmtán ára og þrjár sextán ára innan vallar. Það er ekki slæmt gegn liði sem er úr Bestu deildinni. En við viljum þakka og hrósa FH fyrir að hafa farið upp úr Lengjudeildinni og standa sig svo svona vel í Bestu deildinni.“

Guðni: FH-hjartað er sært akkúrat núna

„Ég er ótrúlega sár og svekktur. Þetta eru gríðarleg vonbrigði,“ sagði Guðni Eiríksson, þjálfari FH, eftir tapið sára í kvöld.

„Mörk breyta leikjum og það er eina tölfræðin sem skiptir einhverju máli í lok leiks. Við vorum fín á mörgum sviðum í dag og áttum þónokkuð af færum, en færanýtingin var ekki nógu góð. Við skoruðum bara eitt mark, reyndar tvö en eitt var dæmt af, en það dugði ekki til.

FH-hjartað er bara sært akkúrat núna,“ sagði Guðni.

Fyrsta mark leiksins kom eftir slæm mistök Aldísar Guðlaugsdóttur í marki FH en Guðni benti á að það hefði síður en svo ráðið úrslitum:

„Það geta allir gert mistök og það er bara svo dýrt þegar aftasti maðurinn gerir mistök. Það er auðveldara að vera frammi og gera mistök. Það verður bara tekið utan um Aldísi og áfram gakk. Það er ekki henni að kenna hvernig leikurinn fór.

Það var nægur tími eftir, og í stöðunni 1-1 leið mér bara vel. FH-liðið var á flottum stað þá og að þrýsta þeim aftarlega á sinn vallarhelming. Það var því mikið högg að fá á sig seinna markið þeirra,“ sagði Guðni.

FH hefur verið á afar miklu flugi í sumar og það gerir vonbrigðin eflaust bara enn meiri yfir því að detta út gegn 1. deildarliði þegar fyrsti bikarúrslitaleikurinn var í sjónmáli:

„Klárt mál. Mikið högg. En við verðum að gjöra svo vel og setja hausinn upp og kassann út því það er stutt í næsta leik.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira