Hinn rúmlega sjötugi Guðjón Óskarsson, sem nú gengur undir nafninu Tyggjókarlinn, hefst handa við ærið verkefni á morgun. Hann ætlar að hreinsa ríflega 38 þúsund tyggjóklessur af götum miðbæjar Reykjavíkur.
Helena Rós Sturludóttir fréttamaður hitti Guðjón í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld:
Hvað kom til að þú hófst að sinna þessu?
„Ég missti atvinnuna á sínum tíma, í kóvid, og fór að ganga um bæinn og mér hreinlega blöskraði ástandið á götum og gangstéttum borgarinnar. Svo ég fjárfesti í græjum og hóf að fjarlægja,“ segir Guðjón.
Einstaklingar og fyrirtæki studdu verkefni
Guðjón segir að fljótlega hafi einstaklingar og fyrirtæki hafið að styrkja verkefnið með fjárframlögum. Þá hafi hann boðið upp á hreinsun við fyrirtæki gegn stuðningi og loks hafi Reykjavíkurborg tekið þátt í verkefninu. Hann hefur unnið fjóra tíma á dag við að hreinsa gangstéttir borgarinnar undanfarið.
Klessulaus 101 Reykjavík
Á morgun hefst svo stórt verkefni sem ber heitið Klessulaus 101 Reykjavík. „Takmarkið er að fjarlægja allar tyggjóklessur úr 101 Reykjavík, þetta er eitthvað um 38 þúsund plús tyggjóklessur, 52,2 kílómetra vegalengd af gangstéttum og á að taka um þrjá mánuði. Ég að vísu geri það ekki einn, ég kem til með að ráða til mín aðstoðarfólk
Forsetinn mætir og Valgeir tekur lagið
Verkefninu verður formlega ýtt úr vör við veitingahúsið Rok á Skólavörðuholti klukkan 11:30. Gestirnir verða ekki af verri endanum en sjálfur Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands mætir. Þá verður Valgeir Guðjónsson kynnir og hann mun taka lagið.