Erlent

Tvö látin og á þriðja tug særð eftir skot­á­rás

Árni Sæberg skrifar
Frá vettvangi árásarinnar í nótt.
Frá vettvangi árásarinnar í nótt. Lögreglan í Baltimore

Tvö eru látin og 28 eru særð eftir skotárás í götupartíi í Baltimore í Bandaríkjunum í nótt.

Lögreglunni í Baltimore barst tilkynning um skotárás á fyrsta tímanum í nótt að staðartíma. Þegar lögregluþjóna bar að garði fundu þeir látna konu og tugi særðra. Níu voru fluttir á spítala og þrír eru taldir í lífshættu. Einn til viðbótar hefur látist af sárum sínum. Frá þessu greinir CNN.

Richard Worley, settur lögreglustjóri Baltimore, segir að hvorki sé vitað hver eða hverjir frömdu árásina né hvort einhver ástæða hafi legið henni að baki.

Brandon Scott, borgarstjóri Baltimore, hefur líst skotárásinni sem skeytingarlausu og huglausu ódæði, sem muni hafa varanleg áhrif á fjölda fólks og hafi kostað tvo lífið.

Þá hefur hann ásamt lögregluyfirvöldum hvatt hvern þann sem kann að búa yfir upplýsingum um málið að deila þeim með lögreglu og hjálpa til við leitina að þeim sem bera ábyrgð á ódæðinu.

„Við munum ekki hætta að leita fyrr en við finnum ykkur, og við munum finna ykkur,“ beindi Scott til þeirra sem ábyrgð bera á skotárásinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×