Innlent

Þrjú útköll vegna manns sem hékk á bjöllunni

Samúel Karl Ólason skrifar
Lögregluþjónar höfðu í mörg horn að líta í gærkvöldi og í nótt.
Lögregluþjónar höfðu í mörg horn að líta í gærkvöldi og í nótt. Vísir/Vilhelm

Lögregluþjónar þurftu þrisvar sinnum í nótt að hafa afskipti af ölvuðum manni sem var að hringja dyrabjöllum í fjölbýlishúsi. Maðurinn lét aldrei segjast og var að lokum handtekinn en samkvæmt dagbók lögreglu streittist maðurinn á móti handtöku og var vistaður í fangaklefa vegna ástands hans.

Einnig barst Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu tilkynning um sofandi mann á veitingastað. Þegar hann rankaði við sér sló hann til lögregluþjóna og reyndi að sparka í þá og hrækja á þá. Hann var sömuleiðis vistaður í fangaklefa.

Þessar tvær tilkynningar bárust til Stöðvar 2 hjá lögreglunni, sem sér um Hafnarfjörð, Garðabæ og Álftanes. Þangað barst einnig önnur tilkynning um ofurölvi mann á veitingastað en hann var einnig grunaður um að hafa brotið rúður í fyrirtækjum í grenndinni , eftir að honum var vísað á brott.

Þá neitaði maðurinn að segja hver hann væri og var hann vistaður í fangaklefa vegna ölvunar.

Lögreglunni barst í gærkvöldi tilkynning um mann sem grunaður var um sölu fíkniefna. Sá fannst og var hann með fíkniefni á sér. Einnig fannst meira af fíkniefnum á dvalarstað mannsins.

Þá slasaðist maður eftir að hann varð fyrir árás tveggja manna. Fórnarlambið náði að koma sér undan og sagði að annar árásarmannanna hefði verið með hníf, þó hann hefði ekki beitt honum. Lögregluþjónar handtóku svo annan mann í nótt sem hótaði öðrum með hnífi.

Vegfarendur í miðborginni stöðvuðu lögregluþjóna og vísuðu þeim á átök þar sem maður er sagður hafa veist að öðrum og slegið hann með glasi í andlitið. Sá síðarnefndi var fluttur á sjúkrahús með áverka í andliti og árásarmaðurinn var handtekinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×