Fótbolti

„Hann leikur þetta bara og fær vítið“

Smári Jökull Jónsson skrifar
Daníel Dejan Djuric náði í víti gegn Keflavík í gær.
Daníel Dejan Djuric náði í víti gegn Keflavík í gær. Vísir/Vilhelm

Keflavík og Víkingur gerðu 3-3 jafntefli í Bestu deildinni í knattspyrnu í gær. Fyrsta mark Víkinga kom úr vítaspyrnu sem dæmd var þegar Danijel Dejan Djuric lét sig falla í teig Keflvíkinga. 

Leikur Keflavíkur og Víkinga í gær var frábær skemmtun. Liðin voru á sitthvorum enda töflunnar fyrir leikinn, Víkingar efstir en Keflvíkingar neðstir en það voru þó heimamenn sem voru grátlega nálægt því að næla í stigin þrjú í gær því Víkingar jöfnuðu metin í uppbótartíma.

Að leik loknum var mikið rætt um atvik sem leiddi til fyrsta marks Víkinga. Danijel Dejan Djuric, leikmaður Víkinga, fékk þá boltann í teignum og féll með tilþrifum þegar Gunnlaugur Fannar Guðmundsson, varnarmaður Keflavíkur, gerði tilraun til að verjast.

Helgi Mikael Jónasson dómari dæmdi á vítapunktinn en Keflvíkingar voru afskaplega ósáttir við dóminn enda virðist það nokkuð augljóst að Danijel Djuric lætur sig falla án þess að nokkur snerting verði. Atvikið var rætt í Bestu tilþrifunum í gærkvöldi og þeir Kjartan Atli Kjartansson og Sigurbjörn Hreiðarsson voru á því að um leikaraskap væri að ræða.

„Þetta er aldrei víti, Gulli fer ekki í hann þarna,“ sagði Sigurbjörn en Gunnlaugur Fannar var afskaplega ósáttur við Danijel og fékk gult spjald eftir að hafa látið hann heyra það í kjölfar dómsins.

„Hann leikur þetta bara og fær vítið. Helgi fellur í þessa gryfju,“ bætti Sigurbjörn við.

Alla umræðu þeirra Kjartans Atla og Sigurbjörns má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.

Klippa: Bestu tilþrifin - Umræða um vítaspyrnudóm



Fleiri fréttir

Sjá meira


×