Innlent

Líkams­á­rás í Kópa­vogi og borgara­leg hand­taka í Vestur­bænum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Almennir borgarar höfðu hendur í hári þjófs í gærkvöldi.
Almennir borgarar höfðu hendur í hári þjófs í gærkvöldi. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu var kölluð til í gærkvöldi vegna líkamsárásar í Kópavogi. Þar hafði einn ráðist á annan og slegið hann ítrekað þar sem hann lá í jörðinni. Var árásarmaðurinn handtekinn en engum sögum fer af meiðslum fórnarlambsins.

Lögregla var einnig kölluð á vettvang vegna þjófnaðar úr verslun í póstnúmerinu 108 en þar reyndust tveir einstaklingar hafa haft á brott með sér vörur að verðmæti 40 þúsund krónur. Teknar voru skýrslur af mönnunum sem fóru svo sína leið.

Annað útkall barst vegna innbrots og þjófnaðar úr verslun í Vesturbænum þar sem innbrotsþjófur flúði inn á byggingarsvæði en var eltur uppi af „hópi réttvísra borgara“, eins og segir í yfirliti lögreglu. Hann var handtekinn og gisti fangageymslu.

Einn var handtekinn vegna innbrots í bifreið og þýfinu sem hann hafði á brott skilað til eiganda. Annar var sektaður fyrir að reykspóla. Þá voru nokkrir stöðvaðir grunaðir um akstur undir áhrifum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×