Boðað var skyndilega til kosninga í landinu eftir að breytingar á stjórnarskránni voru samþykktar á dögunum. Hinn 65 ára Mirziyoyev mun því að óbreyttu sitja á forsetastóli til ársins 2030.
Fjórir voru í framboði í kosningunum, Mirziyoyev og þrír fremur óþekktir frambjóðendur. Kosningaeftirlitsmenn á vegum ÖSE hafa bent á að þetta sé augljóslega ein birtingarmynd mjög veikrar stjórnarandstöðu í landinu.
Mirziyoyev er menntaður verkfræðingur og hefur lýst sjálfum sér sem umbótasinna sem vinni að því að skapa „Nýtt Úsbekistan“. Í kosningabaráttunni lagði hann mesta áherslu á efnahags- og menntamál, auk þess að hann sagðist vilja vinna að fjölgun ferðamanna til landsins og aukningar erlendrar fjárfestingar.
Mirziyoyev boðaði til kosninganna í kjölfar nýsamþykktra stjórnarskrárbreytinga sem tryggja að forseti geti setið tvö kjörtímabil. Hann gæti því í raun nú gegnt embætti forseta til ársins 2037.
Frjáls félagasamtök segja að staða mannréttindamála hafi batnað nokkuð í Úsbekistan í stjórnartíð Mirziyoyev, samanborið við í stjórnartíð forverans, Islam Karimovs.
Mirziyoyev gegndi á sínum tíma embætti forsætisráðherra í stjórnartíð Karimovs, en hefur eftir að hann tók við forsetaembættinu ógilt einhver þau kúgunarlög sem komið var á í stjórnartíð Karimovs.