Ryan Gosling, meðleikari hennar í myndinni, segir frá í viðtali við People tímaritið. Barbie myndarinnar í leikstjórn Gretu Gerwig hefur verið beðið með mikilli eftirvæntingu og verður loksins frumsýnd í næstu viku. Þar fer Margot Robbie með hlutverk Barbie og Ryan Gosling með hlutverk Ken.
„Margot var með bleikan dag einu sinni í viku þar sem allir voru skyldaðir til þess að mæta í bleiku. Ef þú gerðir það ekki, þá varstu sektaður,“ hefur tímaritið eftir leikaranum.
Hann segir áströlsku leikkonuna, sem sleit barnsskónum sem leikkona í sápuóperuþáttunum um Nágranna, hafa gengið á milli, sektað fólk og svo gefið upphæðina til góðgerðarmála.
„Það sem var einstakt er hvað karlmennirnir á setti voru spenntir yfir þessu. Þegar við kláruðum tökur hittust allir gaurarnir og útbjuggu bleika boli með regnboga á,“ segir leikarinn sem segir bleiku fötin hafa verið tækifæri fyrir hópinn til þess að votta leikstjóranum Gretu Gerwig og Margot Robbie virðingu sína.
Hjálpaði Gosling að beisla „Ken-orkuna“
Þá hefur Ryan Gosling áður lýst því hvernig Margot Robbie hafi lagt mikið á sig til þess að aðstoða Gosling við að beisla „Ken-orkuna“ eins og hann lýsir því.
Þannig hafi leikkonan gefið honum bleikan pakka með bleikri slaufu, frá Barbie til Ken, á hverjum einasta degi á meðan tökur stóðu yfir. Gosling segir gjafirnar allar hafa tengst ströndinni á einn eða annan hátt.
Stundum hafi þar verið á ferðinni skartgripir í laginu eins og skeljar eða brimbrettaskilti. „Af því að starf Ken felst bara í ströndinni. Ég hef aldrei skilið nákvæmlega í hverju það felst. En mér fannst eins og hún væri að aðstoða Ken við að skilja þetta í gegnum þessar gjafir.“