Kristján Már Unnarsson fréttamaður og Sigurjón Guðni Ólason myndatökumaður voru um borð í þyrlu Norðurflugs yfir gosinu og lýsti Kristján því sem fyrir augu og eyru bar. Útsendingu er nú lokið en horfa má á brot af því besta í spilaranum.
Hér fyrir neðan má svo sjá útsendinguna í heild sinni.
Þriðja eldgosið á jafnmörgum árum
Þriðja eldgosið er nú hafið á Reykjanesinu á um tveimur árum og fjórum mánuðum. Eldgos hófst við Fagradalsfjall þann 19. mars 2021 í kjölfar jarðskjálftahrinu sem varði í yfir þrjár vikur en þá voru 800 ár liðin frá síðustu eldsumbrotum á svæðinu. Var eldgosið 2021 því merki um nýtt virknitímabil á Reykjanesi sem sérfræðingar telja að gæti varið í langan tíma. Eftir þægilegt og stóráfallalaust gos hætti hraunflæði úr gígnum um hálfu ári síðar þann 18. september 2021.
Eldgos hófst svo í Meradölum þann 3. ágúst í fyrra á nálægu svæði nálægt Fagradalsfjalli, þá í kjölfar jarðskjálftahrinu sem hafði ágerst í nokkrar vikur. Eldgosið í Meradölum stóð yfir í um átján daga og varði því í mun styttri tíma en eldsumbrotin árið 2021.
Yfirstandandi skjálftahrina á Reykjanesi hófst þann 4. júlí síðastliðinn og því ljóst að aðdragandinn að nýja eldgosin eru töluvert styttri í þetta skiptið. Náði skjálftahrinan ákveðnum hápunkti klukkan 22:23 í gær þegar stærsti jarðskjálftinn til þessa lét finna fyrir sér víða um land en hann var 5,2 að stærð. Innan við sólarhring síðar var farið að bera á eldvirkni við Keili.
Fréttin hefur verið uppfærð.