Fótbolti

Barcelona grípur til ör­þrifa­ráða til að fjár­magna endur­nýjun Camp Nou

Smári Jökull Jónsson skrifar
Byrjað er að rífa niður Camp Nou leikvanginn í Barcelona.
Byrjað er að rífa niður Camp Nou leikvanginn í Barcelona. Vísir/Getty

Niðurrif á Nou Camp, heimavelli Barcelona, er hafið en endurnýja á leikvanginn nánast frá grunni. Félagið hefur ákveðið að fara heldur óvenjulega leið til að fjármagna byggingu nýs leikvangs.

Barcelona mun ekki leika heimaleiki sína á hinum sögufræga Camp Nou velli á næsta tímabili. Niðurrif á vellinum er hafið en byggja á hann upp á ný nánast frá grunni. 

Kostnaður við enduruppbygginguna er gríðarlegur en áætlað er að Barcelona muni borga alls 186 milljarða króna fyrir nýja leikvanginn. Eftir breytingarnar mun völlurinn taka 105.000 áhorfendur í sæti.

Fjármál Barcelona hafa verið í brennidepli síðustu árin og hefur félagið meðal annars verið í vandræðum með að skrá nýja leikmenn í leikmannahóp sinn vegna fjárhagsvandræða og þá samþykktu forráðamenn La Liga ekki þann samning sem Barcelona bauð Lionel Messi á sínum tíma sem varð til þess að hann endaði hjá PSG í Frakklandi.

Félagið hefur því gripið til örþrifaráða til að fjármagna nýjan heimavöll. 

Félagið er með áætlanir um að hanna skartgripalínu með demöntum sem verða gerðir úr grasi frá Camp Nou. Steinarnir verða unnir með sérstakri aðferð og mun félagið meðal annars útbúa 57 eins karats demanta sem verða seldir á rúmar 2,2 milljónir króna hver.

Þá verða einnig til sölu armbönd, hálsmen og hringir. Félagið reiknar með að þéna meira en fjóra milljarða árlega á skartgripasölunni.

Barcelona mun spila á Ólympíuleikvanginum í borginni á næsta tímabili og spila síðan tímabilið 2024-25 á Camp Nou en þó með takmörkuðum sætafjölda. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×