Enski boltinn

Við­ræður standa yfir á milli Totten­ham og Bayern

Smári Jökull Jónsson skrifar
Harry Kane mætir til æfinga hjá Tottenham í dag.
Harry Kane mætir til æfinga hjá Tottenham í dag. Vísir/Getty

Forráðamenn Tottenham og Bayern Munchen eiga í viðræðum um mögulegt kaupverð Harry Kane. Enski landsliðsframherjinn mætti til æfinga í dag og mun eiga fund með nýja knattspyrnustjóranum Ange Postecoglu.

Framtíð Harry Kane hefur verið mikið í fréttunum síðustu daga. Kane verður samningslaus að ári liðnu og gæti þá yfirgefið Tottenham Hotspurs frítt sem Lundúnafélagið vill ekki að gerist. Tottenham hefur boðið Kane nýjan risasamning en hann hefur mikið verið orðaður við þýska meistaraliðið Bayern Munchen sem hefur lagt fram tvö tilboð í hann.

Kane mætti í dag til æfinga eftir lengra sumarfrí en margir aðrir leikmenn liðsins. Hann mun þá setjast niður með nýjum knattspyrnustjóra Ange Postecoglu.

Þá greinir Skysports frá því að samtal sé í gangi á milli forráðamanna Tottenham og Bayern Munchen um mögulegt kaupverð en sjálfur hefur Kane ekki lokað neinum gluggum og gæti verið opinn fyrir því að ræða við Bayern.

Forráðamenn Tottenham hafa komð því skýrt á framfæri að þeir hafi engan áhuga á að selja fyrirliðann sinn sem sló markamet félagsins á síðasta tímabili. Ef Kane segist hins vegar vilja fara mun Tottenham fara fram á mun meira en þær 70 milljónir punda sem Bayern er tilbúið að borga.

Tottenham finnst þó skárri kostur að selja Kane til félags utan Englands og það er ástæðan fyrir því að samtal þeirra og Bayern er enn í gangi. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×