Jens Stoltenberg aðalframkvæmdastjóri NATO hefur kynnt þriggja liða áætlun bandalagsins um leið Úkraínu til fullrar aðildar að bandalaginu. Í fyrsta lagi mun NATO aðstoða Úkraínu við að aðlaga allan búnað og áætlanir herja Úkraínu að herjum NATO.
Í öðru lagi væri stofnun Úkraínuráðs innan NATO. Þar mættust aðilar sem jafningjar til að taka ákvarðanir varðandi Úkraínu. Í þriðja lagi þyrfti Úkraína ekki að leggja fram aðgerðaáætlun eins og önnur umsóknarríki sem ætti að flýta aðildarferlinu. Þegar aðildarríkin teldu að Úkraína hefði uppfyllt skilyrði þessarar áætlunar verði Úkraínu boðin full aðilda að bandalaginu.
Á sameiginlegum fréttamannafundi Volodymyrs Zelensky forseta Úkraínu og Jens Stoltenbergs sagði Zelensky að boð um aðild að NATO á leiðtogafundinum hefði verið óska niðurstaða. Hann kynni þó vel að meta þau skref sem stigin hefðu verið. Hann hefði skilning á að ekki gæti orðið að fullri aðild á meðan stríð geisaði í Úkraínu, vegna skuldbindinga NATO gagnvart bandalagsþjóðum sem ráðist væri á.
Aðild Úkraínu að NATO tengist á vissum sviðum undirbúningi aðildar landsins að Evrópusambandinu. Ursula von der Leyen forseti framkvæmdastjórnar ESB segir að í báðum tilfellum væri ófrávíkjanleg krafa um endurbætur og styrkingu stofnana í Úkraínu.
„Auk baráttunnar við spillingu. Framkvæmdastjórnin á mjög náið samstarf með Úkraínu um þessar umbætur. Það er ótrúlegt að fylgjast með því hversu hratt Úkraínu gengur að innleiða þær þrátt fyrir stríðið," sagði von der Leyen fyrir leiðtogafundinn í morgun.
Jens Stoltenberg ítrekaði í morgun að Vladimir Putin forseti Rússlands hefði bæði vanmetið baráttuþrek og djörfung Úkraínumanna og staðfestu NATO ríkjanna þegar hann réðst inn í Úkraínu.
„Bandalagsþjóðirnar hafa lagt Úkraínu til tugi milljarða dollara síðast liðið ár. Og nú höfum við sameinast um áætlun í þremur liðum sem færir Úkraínu nær bandalaginu," sagði Stoltenberg. Rússar hefðu ekkert um það að segja hvaða þjóðir gengju í NATO.