Innlent

Myndband sýnir enn töluverða virkni: Gossvæðið fylltist strax og það var opnað

Oddur Ævar Gunnarsson og Kristján Már Unnarsson skrifa
Ótrúlegar drónamyndir Björns Steinbekks af gosinu við Litla Hrút sýna að enn er töluverð virkni.
Ótrúlegar drónamyndir Björns Steinbekks af gosinu við Litla Hrút sýna að enn er töluverð virkni. Björn Steinbekk

Lög­regla segir að vel hafi gengið eftir að gos­stöðvar voru opnaðar á ný á Reykja­nesi í dag þegar fjögurra daga banni við ferðum fólks var af­létt eftir há­degi. Ferðamenn voru agndofa þegar fréttastofa ræddi við þá um gosið. Ó­trú­legt dróna­mynd­band frá Birni Stein­bekk sýnir að enn er tölu­verður kraftur í gosinu.

Hjálmar Hall­gríms­son, vett­vangs­stjóri lög­reglunnar á Suður­nesjum, ræddi við frétta­stofu í beinni út­sendingu í kvöld­fréttum Stöðvar 2 í kvöld. Hann segir að yfir­völd hafi gert ráð fyrir því að allt myndi fyllast af ferða­löngum um leið og gossvæðið yrði opnað.

Sáu eldgosið síðasta daginn á Íslandi

Fréttastofa ræddi við ferðamennina Ninu og Volgert. Þau höfðu aldrei séð eldgos áður. 

„Við vorum heppin því þetta er síðasti dagur okkar á Íslandi. Við héldum að við myndum missa af gosinu en svo var gönguleiðin opnuð nú síðdegis.“

Voruð þið lengi að ganga?

„Já, tvo og hálfan tíma. Við gengum tíu kílómetra leiðina.“

Hvað finnst ykkur um þetta?

„Þetta er magnað. Mjög fallegir litir,“ segir parið sem segir ekki spurning um það að ferðin muni reynast ógleymanleg.

Vísindamenn fylgjast vel með gosinu. Svo virðist vera sem hraunflæðið hafi minnkað en ótrúlegt myndband Björns Steinbekks drónamyndatökumanns af gosinu sýnir að enn er þó töluverður kraftur í því.

Vinna í slökkvistörfum með

„Við erum eins og komið hefur fram enn að vinna í slökkvi­störfum svo við erum að reyna að gera þetta sam­tímis. En þetta hefur gengið alveg á­gæt­lega,“ segir Hjálmar.

Á korti sem al­manna­varnir hafa birt af gossvæðinu er tekið fram að bannað sé að fara alveg upp að elds­stöðinni. Fólk getur því einungis séð gosið úr rúm­lega einni og hálfs kíló­metra fjar­lægð.

„Það er bann­svæði alveg inn að Keili þar sem kviku­gangurinn er. Við tókum á­kvörðun um að opna þarna þannig að fólk kemst að sjá þetta. Ekki á þeim út­sýnis­stað sem við á­ætluðum í fyrstu en með því að fólk virði þetta þá getur þetta gengið upp svona og mér vitan­lega hefur þetta gengið bara á­gæt­lega í dag.“

Kortið sýnir þær gönguleiðir sem almenningur getur farið að gosinu, meðal annars gönguleiðir úr fyrri gosum á Reykjanesskaga.Almannavarnir

Þið bjóðið upp á fleiri en eina göngu­leið?

„Já vissu­lega. Við erum með þessa Mera­dala­leið sem er þægi­legust á fótinn. Þetta er níu kíló­metrar til að fara sem næst. Það sést nú eitt­hvað eftir fimm kíló­metra, þá er hægt að sjá gíginn. En við erum með göngu­leiðir A og C sem er Langi­hryggur og svo upp á Fagra­dals­fjall sem við vorum að nota í fyrri gosum og ein­hverjir hafa valið að fara þá leiðir.“

Hjálmar segir að allt hafi gengið að óskum í dag. Yfir­völd hafi unnið gott starf á meðan lokað var, lagað veginn, bætt að­búnað á svæðinu og komið upp skiltum.

En fréttir bárust í dag af því að þið væruð að leita að fólki?

„Það var í dag. Þá hafði aðili gengið frá Höskuldar­völlum og lent í ein­hverjum vand­ræðum. Það gekk fljótt fyrir sig eftir að við fengum mann­skap til að leita að honum og þá gekk það bara vel.“

Hvað er á­ætlað að fólk sé lengi að fara þessa leið?

„Þetta er örugg­lega tveggja tíma gangur, þessir átta kíló­metrar. Þetta er svona fjögurra, fimm tíma ferða­lag með setu inn frá og horfa á gíginn og hraunána.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×