Fótbolti

Fyrsti Skagamaðurinn í frönsku deildinni í næstum því fjörutíu ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hákon Arnar Haraldsson hefur spilað sinn síðasta leik með FC Kaupmannahöfn og færir sig nú yfir til Frakklands.
Hákon Arnar Haraldsson hefur spilað sinn síðasta leik með FC Kaupmannahöfn og færir sig nú yfir til Frakklands. Getty/Lars Ronbog

Hákon Arnar Haraldsson er orðinn leikmaður franska liðsins Lille en félagið keypti hann frá FC Kaupmannahöfn.

Franska liðið hefur mikla trú á íslenska landsliðsmanninum og borgar fyrir hann sautján milljónir evra eða meira 2,5 milljarða íslenskra króna.

Þessi tvitugi strákur hefur gert flotta til með danska liðinu og varð á síðasta tímabili aðeins fjórði Íslendingurinn sem nær að skora í Meistaradeildinni.

Með því að fara til franska liðsins þá verður Hákon Arnar fyrsti Skagamaðurinn til að spila í frönsku deildinni í næstum því fjóra áratugi eða síðan Karl Þórðarson lék með Laval tímabilið 1983-84.

Karl skoraði 3 mörk í 31 leik með Lavel tímabilið 1983-84 en það var hans þriðja tímabil með Laval í Ligue 1. Karl er leikjahæsti íslenski leikmaðurinn í frönsku deildinni með 95 leiki.

Skagamenn eiga einnig markahæsta íslenska leikmanninn í frönsku deildinni því Teitur Þórðarson skoraði 20 mörk í 48 leikjum með Lens frá 1981-82. Tímabilið 1981-82 varð Teitur fjórði markahæstur í frönsku deildinni með 19 mörk.

Karl lék sinn síðasta leik í frönsku deildinni 2. maí 1984 en hann kom þá heim og hjálpaði Skagamönnum að vinna tvöfalt.

Síðan Karl yfirgaf deildina fyrir fjörutíu árum hafa nokkrir íslenskir leikmenn reynt fyrir sér í deildinni, leikmenn eins og Arnór Guðjohnsen, Veigar Páll Gunnarsson, Eiður Smári Guðjohnsen, Kolbeinn Sigþórsson og Rúnar Alex Rúnarsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×