Í tilkynningu frá Lögreglunni á Suðurnesjum segir að gönguferðin taki um fimm til sjö klukkustundir og henti ekki öllum. Þar segir einnig að björgunarsveitarfólk hafi komið nokkrum til aðstoðar í gær og í nótt en engin alvarleg tilfelli hafi komið upp.
Fólk er beðið um að haga sér í samræmi við fyrirmæli lögreglu og björgunarsveita og fara ekki inn á merkt hættu- og bannsvæði. Búist er við því að gasmenginunin berist til suðurs í dag og að hennar verði vart á Suðurstrandavegi og á gönguleiðum að gosstöðvunum.
„Mikilvægt er að hafa í huga að gossvæðið er hættulegt svæði þar sem aðstæður geta breyst skyndilega. Lögregla varar fólk við að dvelja nærri gosstöðvunum vegna gasmengunar. Hætta eykst þegar vind lægir. Þá geta lífshættulegar gastegundir safnast í dældum og geta reynst banvænar. Nýjar gossprungur geta opnast með litlum fyrirvara og glóandi hraun getur fallið úr hraunjaðri og hröð og skyndileg framhlaup orðið þar sem nýjar hrauntungur brjótast fram sem erfitt getur verið að forðast á hlaupum,“ segir í tilkynningunni.

Örlítill samdráttur
Nýjar gervihnattamyndir sýna að síðustu fjóra daga, hefur dregið örlítið úr hraunflæði sé það borið saman við dagana þar á undan. Dagana 13. til 17. júlí mældist hraunflæðið tæplega þrettán rúmmetrar á sekúndu. Flæðið var 14,5 rúmmetrar á sekúndu dagana 11. til 13. júlí.
Á vef Jarðvísindastofnunar Háskólans segir að munurinn sé ekki marktækur, sé tillit tekið til óvissu í mælingunum.
Þá er hraunið orðið 0,83 ferkílómetrar í flatarmál og rúmmál þess er 8,4 milljón rúmmetrar. Hraunjaðarinn hefur færst fram að meðaltali um þrjú til fjögur hundruð metra á dag en færslan er mjög breytileg.
Hraunið er að mestu tuttugu metra þykkt en meðalþykktin er um tíu metrar.