Innlent

Gígbarmurinn brast í nótt

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Hraunið rennur nú í átt að Litla-Hrút.
Hraunið rennur nú í átt að Litla-Hrút. Vísir/Vilhelm

Breytingar urðu á rennslinu í Eldgosinu við Litla-Hrút í nótt þegar gígbarmurinn brast og hraunið rennur nú í nýjum farvegi.

Magnús Freyr Sigurkarlsson náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands segir að óróinn hafi aukist rúmlega tíu í gærkvöldi. 

„Óróinn stóð alveg fram til korter yfir fjögur í nótt og þá varð mikil aukning í gígnum sem varð til þess að gígbarmurinn suðvestan meginn í gígskálinni hrundi og mikið af hrauni rann út,“ segir Magnús og bætir við að í kjölfarið hafi stefnan á hraunrennslinu breyst í vestur/suðvestur átt.

Aðspurður segir Magnús Freyr að hraunið renni því nú í átt að Litla-Hrút en hann telur þó líklegt að hraunið finni aftur leið að gamla farveginum. Þetta hægi þó á hraunrennslinu í suður.

Magnús Freyr segir að svipað hafi gerst í gosinu 2021 en þá hafi það verið þannig að það hægði verulega á kvikurennslinu og nýtt gosop virtist myndast. Það virðist þó ekki vera staðan núna. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×