Innlent

Stúlka ör­magnaðist á gos­stöðvum

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Gríðarlegur fjöldi fólks hefur lagt leið sína á gosstöðvar og á fjöldinn miserfitt með að fara eftir fyrirmælum lögreglu.
Gríðarlegur fjöldi fólks hefur lagt leið sína á gosstöðvar og á fjöldinn miserfitt með að fara eftir fyrirmælum lögreglu. Vísir/Vilhelm

Tölu­verður erill var hjá lög­reglunni á Suður­nesjum á gossvæðinu í gær og í gær­kvöldi. Að­stoða þurfti nokkra göngu­garpa og þá voru ein­hverjir sem ekki hlýddu fyrir­mælum. Ekki gengur vel í öllum til­vikum að biðja fólk að halda sig utan hættu­svæðis.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í til­kynningu frá lög­reglunni. Áður hefur komið fram að ferða­maður hafi hnigið niður vegna veikinda. Hann var fluttur á Land­spítalann þar sem hann var úr­skurðaður látinn. Maðurinn var á sex­tugs­aldri og liggja frekari upp­lýsingar ekki fyrir.

Björgunar­sveitir að­stoðuðu konu sem var slæm í baki. Var henni hjálpað niður á bíla­stæði. Þá varð tólf ára stúlka ör­magna á göngu­leiðinni og var hún flutt af svæðinu af björgunar­sveitar­mönnum.

Auk þess varð kona við­skila við ferða­hóp en fannst skömmu síðar. Lög­regla hafði einnig af­skipti af nokkrum mönnum á fjór­hjólum sem ekki fóru að fyrir­mælum lög­reglu.

Í til­kynningu sinni segir lög­regla ekki ganga vel í öllum til­fellum að biðja fólk um að halda sig utan hættu­svæðis. Lög­regla biðlar til fólks um að haga sér í sam­ræmi við fyrir­mæli lög­reglu og fara ekki inn á merkt hættu­svæði og bann­svæði.

Hún minnir á að mikil­vægt sé að hafa í huga að gossvæðið sé hættu­legt svæði þar sem að­stæður geti breyst skyndi­lega. Lög­regla varar fólk við að dvelja nærri gos­stöðvunum vegna gasmengunar. Hætta eykst þegar vind lægir. Þá geta lífs­hættu­legar gas­tegundir safnast í dældum og geta reynst ban­vænar. Nýjar gos­sprungur geta opnast með litlum fyrir­vara og glóandi hraun getur fallið úr hraun­jaðri og hröð og skyndi­leg fram­hlaup orðið þar sem nýjar hraun­tungur brjótast fram sem erfitt getur verið að forðast á hlaupum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×