Innlent

Aðstoðuðu fjölskyldu með úrvinda börn

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Ferðamenn hafa streymt að svæðinu undanfarna daga.
Ferðamenn hafa streymt að svæðinu undanfarna daga. vísir/arnar

Gossvæðið við Litla Hrút á Reykjanesi er opið í dag en lögregla leggur áherslu á að ekki sé farið með börn á svæðið og að fólk með hjarta- eða lungnasjúkdóma gangi ekki að gosinu. 

Í tilkynningu lögreglunnar á Suðurnesjum segir að á öðrum tímanum í nótt sé áætlað að um fimmtíu manns hafi verið á gossvæðinu.

„Um svipað leyti þurfti að aðstoða þrjá erlenda ferðamenn sem treystu sér ekki til að ganga til baka niður Meradalaleið. Rétt fyrir klukkan eitt í nótt þurfti að aðstoða erlenda fjölskyldu með tvö lítil börn sem voru úrvinda af þreytu og koma þeim niður á bílastæði. Það eru helst erlendir ferðamenn sem þurfa aðstoðar við.“

Mynd sem sýnir hættusvæðið.lögreglan á suðurnesjum

Engin óhöpp hafi hins vegar orðið í gærkvöldi og nótt en til manna sást mjög nærri gígnum. „Ekkert sem viðbragðsaðilar gátu gert enda fara þeir ekki svo nærri gígnum,“ segir í tilkyninngunni.

Lögreglumenn, björgunarsveitarmenn, landverðir og sjúkraflutningamenn verða á svæðinu í dag. Þá segir að mikilvægt sé að hafa í huga að aðstæður geta breyst skyndilega og varar lögregla fólk við því að dvelja nærri gosstöðvum vegna gasmengunar. Þá er mælt með notkum rykgrímna.

„Göngumenn klæði sig eftir veðri, taki með sér nesti og gleymi ekki að hafa næga hleðslu á farsímum. Ekki er tryggt öryggi farsíma á svæðinu. Bílum skal lagt á merktum stæðum við Suðurstrandarveg en ekki í vegkanti Suðurstrandarvegar.“

Nánari upplýsingar má nálgast á eftirfarandi vefsíðum: 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×