„Það var stórkostlegt að verða vitni að þessu,“ segir Ísak Finnbogason, sem getið hefur sér frægð fyrir myndbönd af gosinu sem hann hefur tekið upp á dróna og streymt í beinni útsendingu á Youtube. Hann tók sér sjaldgæfan frídag frá streymi í dag, enda skyggnið lítið fyrir gosmóðu.
„Það er svo ótrúlega mikið af hlutum sem gerast í gosinu en eru ekki endilega hjá sjálfum gígnum og fólk missir svolítið af því,“ segir Ísak um augnablikið þegar hraunáin gleypti vegginn.
„Það er það skemmtilega við að vera duglegur að streyma frá svæðinu með drónanum, að manni tekst að skoða allt svæðið, hvert hraunið rennur frá upphafi og hvar það síðan endar og þá hvaða atburðir verða á meðan.“
Fólk fylgist með frá Suðurskautslandinu
Óhætt er að segja að streymið hjá Ísaki hafi slegið í gegn en þetta er ekki í fyrsta skiptið sem Ísak streymir gosi á Reykjanesi. Hann var líka mættur í fyrra og í hitt í fyrra en myndband hans af göngugörpum á glænýju hrauni í Meradölum í fyrra vakti til að mynda mikla athygli.
Sjá einnig: Gengu út á hraunið og upp að gígunum
„Ég var nýkominn heim frá útlöndum þegar það byrjaði að gjósa í þetta skiptið. Ég var mjög stressaður að missa af þessu, þannig að ég var mættur á Reykjanesið þegar gosið hófst og var líka hérna þegar stóri skjálftinn reið yfir þarna sem var meira en fimm að stærð. Það var mjög óhugnalegt.“
Þegar mest var voru rúmlega 10.500 manns að fylgjast með streyminu hjá Ísaki. Það var fyrsta dag gossins, enda var Ísak einn hina fyrstu sem mætti á svæðið. Ísak segir áhorfendurna vera frá hinum ýmsu heimshornum, meðal annars Suðurskautslandinu.
„Það er fólk úti um allan heim að fylgjast með þessu. Bandaríkjamennirnir eru sérstaklega duglegir og þeir eru duglegir að tjá sig við myndböndin. Margir virðast gera sér glaðan dag með fjölskyldunni við að horfa á þetta, fólk er að poppa sér popp og fylgjast með þessú í sjónvarpinu,“ segir Ísak.
Hann ræðir sjálfur við áhorfendur í gegnum streymið og segir áhorfendur „klukka sig“ um leið og hann hætti að tala. Fólk kunni að meta að fá lýsingar heimamanns af gosinu.
„Um leið og ég hætti að tala þá spyr fólk: „Hvar er Ísak?!,“ segir hann hlæjandi. Hann viðurkennir að þetta hafi verið mikil keyrsla, enda Ísak einungis búinn að taka sér tvo daga í frí.
Aðstoðar björgunarsveitir og lögreglu
„Þetta hefur tekið á en er ótrúlega gefandi, sérstaklega í ljósi þess að ég hef verið að aðstoða björgunarsveitir og lögreglu við gosið. Degi eftir að gosið byrjaði uppgötvuðu tveir björgunarsveitarmenn að ég hefði yfirsýn yfir svæðið með drónanum þrátt fyrir mengunina og ég gat bent þeim á hvar fólk væri við gíginn. Síðan þá hafa þeir fylgst með mér hjá viðbragðsteymi almannavarna og ég hef verið á „stand by“ ef svo má segja.“
Ísak ætlar að vera aftur með streymi á Youtube á morgun. Hann segir að þetta henti sér vel, enda safni hann sjálfur ógrynni af efni með því að taka gosið svo gaumgæfilega upp með dróna.