Þetta kom fram í þættinum Sprengisandi í morgun þar sem Bjarni og Kjartan Páll Sveinsson, formaður Strandveiðifélags Íslands, ræddu um málið.
„Með því að fara vel yfir þetta í upphafi sumars þá er hægt að sjá heimildir hér og þar sem hægt er að nýta sem annars féllu niður á fiskveiðiárinu og bæta þeim við strandveiðipottinn. Það gerði núverandi ráðherra með myndarbrag síðastliðið sumar og forveri hennar á árinu undan. Ég er ekki á sama stað og matvælaráðuneytið núna, að það hefði ekki verið hægt að gera slíkt hið sama þetta fiskveiðiárið,“ sagði Bjarni.
Aumlegt og lúalegt viðtal
Bæði Bjarni og Kjartan sögðu það aumlegt og lúalegt af Þorsteini Sigurðssyni,forstjóra Hafrannsóknarstofnunar að segja í viðtali við RÚV að kvótakerfið væri í uppnámi ef nokkur hundruð tonnum yrði bætt við strandveiðarnar. Ekki múkk hefði heyrst frá sömu stofnun varðandi stórútgerðina.
Kjartan var mjög ómyrkur í máli í garð stórútgerðarinnar og SFS hvað varðar umræðuna um skiptingu aflans. Strandveiðimenn hefðu einungis 0,88 prósent kvótans.
„Ef það væri ekki fyrir SFS og stórútgerðina þá væri þetta lagað með einu pennastriki. Við verðum að athuga hvers vegna þeir hata okkur svona gjörsamlega eins og pestina. Samningurinn við þjóðina út frá þeirra sjónarhorni er að íslenskur sjávarútvegur sé arðbær en fá þá að vera svolitlir bastarðar á móti. Það er díllinn. Ef það þarf að leggja nokkur sjávarpláss í rúst og skrapa nokkur kóralrif þá er það í lagi,“ sagði Kjartan.
ATH: Fréttin hefur verið uppfærð