Fyrirfram reiknuðu flestir með að gestirnir myndu ekki eiga í miklum erfiðleikum með Zalgiris, en lið frá Litáen hafa hingað til ekki riðið sérlega feitum hesti frá Meistaradeildinni. Nígeríska markamaskínan Mathias Oyewusi kom heimamönnum yfir í upphafi seinni hálfleiks en slæmur tveggja mínútna kafli frá 75. mínútu þýddi að gestinir voru komnir með tögl og haldir í leiknum, staðan 1-2.
Leikmenn Zalgiris neituðu þó að gefast upp og jöfnuðu leikinn á 91. mínútu. Þar var að verki Donatas Kazlauskas, sem uppskar sitt annað gula spjald að launum fyrir fagnaðarlætin og verður því fjarri góðu gamni í seinni leik liðanna.