Þetta segir Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands, um stöðu eldgossins við Litla-Hrút.
Eitthvað minna hefur farið fyrir eldgosinu á vefmyndavélum fjölmiðla en áður. Að sögn náttúruvársérfræðings hjá Veðurstofu Íslands er erfitt að meta stöðuna út frá því myndefni, einkum þegar þoka hefur byrgt sýn á svæðinu eins og í nótt. Greinilegt sé að gosið malli áfram og náið verði fylgst með því hvernig dagurinn fari.
Von er á niðurstöðum nýrra hraunflæðimælinga síðar í dag en um helgina var greint frá því að framleiðni gossins hafi minnkað töluvert frá því það hófst þann 10. júlí síðastliðinn. Er það mat sérfræðinga að goslok séu möguleg eftir eina til tvær vikur ef áfram dregur úr framleiðni gossins með sama hraða.
Magnús Tumi segir að ef horft sé til sögunnar og þróunar fyrri eldgosa sé það líklegasta niðurstaðan að krafturinn í gosinu við Litla-Hrút minnki og það endi.
„En ef að það er í 70 prósent tilfella þá eru hin 30 prósent öðruvísi svo við verðum bara að sjá.“ Of snemmt sé að segja til um það hvort hraunflæðið hafi minnkað frá því um helgina en greining sé hafin á nýjum gögnum sem safnað var á gossvæðinu í gær.