Innlent

Mælingar á ís­lensku skólpi sýni mikla neyslu sterkra fíkni­efna

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Margrét Valdimarsdóttir, dósent í afbrotafræði, segir mælingar sýna fram á aukna fíkniefnaneyslu hér á landi.
Margrét Valdimarsdóttir, dósent í afbrotafræði, segir mælingar sýna fram á aukna fíkniefnaneyslu hér á landi. Vísir/Arnar

Dósent í afbrotafræði segir neyslu fíkni­efna vera farin að færast aftur í aukana hér­lendis eftir heims­far­aldur. Lög­regla hafi aldrei lagt hald á eins mikið af fíkni­efnum og á síðasta ári og þá sýni mælingar á skólpi höfuð­borgar­búa að neyslan sé mikil og sam­bæri­leg við fíkni­efna­neyslu í er­lendum stór­borgum.

Níu hafa verið hand­teknir í tengslum við fjögur mál í tengslum við inn­flutning á kókaíni á síðustu tveimur vikum. Sex þeirra sæta gæslu­varð­haldi vegna málanna en hinir þrír ganga lausir með stöðu sak­bornings. Um er að ræða Ís­lendinga og er­lenda ríkis­borgara á aldrinum 25 til 50 ára. Mið­læg rann­sóknar­deild lög­reglunnar á höfuð­borgar­svæðinu hefur málið til rann­sóknar og hefur notið að­stoðar sér­sveitar og toll­gæslunnar.

Margrét Valdimars­dóttir, dósent í af­brota­fræði við HÍ, ræddi mála­flokkinn í kvöld­fréttum Stöðvar 2. Hún segir að sé af­brota­töl­fræði lög­reglunnar skoðuð sé ljóst að fíkni­efna­málum hefur fjölgað á síðustu árum.

Fjölgað eftir heimsfaraldur

„Og var að fjölga alveg þar til í Co­vid, þegar þeim snar­fækkaði og svo hefur þeim fjölgað mikið eftir Co­vid. Þá ein­mitt getur maður spurt sig: Hvað er í gangi?“

Hægt sé að spyrja sig hvort fíkni­efna­neysla á Ís­landi sé að aukast, hvort hún sé mikil hér á landi í saman­burði við aðrar borgir og þjóðir en einnig hvort að ein­fald­lega sé hægt að út­skýra aukinn fjölda með því að lög­reglan sé að verða færari í að rann­saka slík mál og stöðva inn­flutning fíkni­efna.

„Af því að við heyrum auð­vitað ekki af þeim málum þar sem inn­flutningurinn heppnast fyrir fíkni­efna­salann. En ef við skoðum annars­konar mælingar eins skólpið á höfuð­borgar­svæðinu, frá­rennslið, þá sjáum við að mælingar á því styðja þessa sömu sögu, það er að segja, fíkni­efna­neysla hefur verið aukast að minnsta kosti á höfuð­borgar­svæðinu, tölu­vert, þá sér­stak­lega kókaín­neysla og þá er am­feta­mín­neysla líka mikil.“

Neyslan sé ekkert minni en í öðrum stór­borgum í Evrópu. Mikil eftir­spurn sé eftir því að komast í vímu á Ís­landi.

Þetta eru á­reiðan­leg gögn, þessi skólp­gögn?

„Já. Þetta eru nokkuð á­reiðan­leg gögn og sýna hversu mikil neyslan er og hversu sterk efnin eru sem eru í notkun.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×