Innlent

Bubbi stranda­glópur á Krít

Eiður Þór Árnason skrifar
Bubbi Morthens gistir í borginni Chania á Krít í nótt.
Bubbi Morthens gistir í borginni Chania á Krít í nótt. Getty/Roberto Moiola - Vísir/Vilhelm

Fjöldi Íslendinga eru strandaglópar á eyjunni Krít á Grikklandi eftir að flugferð Icelandair þaðan til Íslands var aflýst vegna tæknibilunar. Meðal þeirra er tónlistarmaðurinn Bubbi Morthens en ekki liggur fyrir hvenær farþegar komast heim.

Að sögn Icelandair er búið að útvega öllum gistingu á hóteli í nótt og nýtt flug áætlað á morgun. Tæknibilunin hafi gert það að verkum að flugfélagið hafi neyðst til að fresta fluginu vegna reglna um hvíldartíma áhafna. 

„Við erum að vinna úr þessum aðstæðum í samstarfi við þjónustuaðila okkar á flugvellinum á Krít en það hefur tekið tíma. Við munum upplýsa farþega um leið og nýtt flug verður staðfest,“ segir Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair. Von sé á upplýsingum um nýjan brottfarartíma snemma í fyrramálið. 

Bubbi Morthens kvartar undan slælegri upplýsingagjöf flugfélagsins í færslu á Facebook-síðu sinni sem hann birti fyrr í kvöld. Hann segir að frestun flugsins muni verða honum afdrifarík þar sem hann eigi bókaða aðra flugferð innanlands á morgun og hafi hafi ætlað í veiðitúr norður í Aðaldal.

„Alvöru tjón í uppsiglingu,“ segir hann á Facebook-síðu sinni. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×