Innlent

Ógnandi hegðun á al­manna­færi og líkams­á­rás með hamri

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Lögregla rannsakar líkamsárás þar sem hamar var hafður fyrir vopn.
Lögregla rannsakar líkamsárás þar sem hamar var hafður fyrir vopn. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók mann í gær eftir að hann sýndi „ógnandi hegðun á almannafæri“. Fór maðurinn ekki að fyrirmælum lögreglu og sagðist meðal annars geta lamið lögreglumenn.

Frá þessu er greint í tilkynningu lögreglu um verkefni gærkvöldsins og næturinnar.

Í tilkynningunni er einnig greint frá því að tilkynnt hafi verið um líkamsárás þar sem hamar var hafður fyrir vopn en engar frekari upplýsingar liggja fyrir um málið aðrar en að það er í rannsókn.

Af öðrum verkefnum má nefna að lögregla vísaði einstakling í annarlegu ástandi út af veitingastað. Þá var annar vistaður í fangageymslu sökum ölvunar. 

Lögreglu barst einnig tilkynning um þjófnað á vespu og þá fór lögregla í eftirlit í umdæminu Kópavogur/Breiðholt eftir að tilkynnt var um grunsamlegar mannaferðir í íbúðahverfi.

Tveir voru stöðvaðir í umferðinni sem reyndust án ökuréttinda en annar þeirra er grunaður um ölvunarakstur. Þá var einn ökumaður stöðvaður á 143 km/klst þar sem hámarkshraði er 80 km/klst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×