Sprengingin varð í vöruhúsi þar sem flugeldar voru geymdir á athafnasvæði Zagorsk-verksmiðjunnar, um 65 kílómetra norðaustur af Moskvu í dag. Rúður í nærliggjandi íbúðarblokkum splundruðust við hvellinn og svæðið í kring var rýmt. Fjörutíu og fimm slösuðust í sprengingunni, að sögn Andrei Vorobjov, ríkisstjóra Moskvuhéraðs.
AP-fréttastofan segir að verksmiðjan framleiði meðal annars ýmis konar sjóntæki sem rússneskar öryggissveitir nota. Vorobjov neitaði því og fullyrti að verksmiðjan framleiddi aðallega flugelda. Á vefsíðu fyrirtækisins er þó fullyrt að það framleiði enn sjóntæki.
A powerful explosion in Sergiyev Posad, a city in the Moscow region, has left up to 38 people injured, say local officials. https://t.co/rxUSQxgzbx pic.twitter.com/mgUxETWPS9
— Kevin Rothrock (@KevinRothrock) August 9, 2023
Rússneskir embættismenn fullyrtu fyrr í dag að loftvarnarkerfi landsins hefði skotið niður tvo dróna sem stefndu á Moskvu í nótt. Héldu þeir því fram að Úkraínumenn hefðu sent þá til þess að gera árás á rússnesku höfuðborgina. Úkraínumenn tjáðu sig ekki um ásakanir Rússa en þeir hafa hvorki viljað staðfesta né hafna að þeir hafi staðið að sambærilegum drónaferðum yfir Rússlandi á undanförnum vikum.
Reuters-fréttastofan hefur eftir rússnesku TASS-ríkisfréttastofunni að viðbragðsaðilar telji ekki að sprengingin í Zagorsk-verksmiðjunni hafi orðið að völdum úkraínsks dróna.