Erlent

Tugir slasaðir í sprengingu í rúss­neskri verk­smiðju

Kjartan Kjartansson skrifar
Reykur stígur upp frá athafnasvæði Zargorsk-verksmiðjunnar í bænum Sergjev Posad, norðaustur af Moskvu.
Reykur stígur upp frá athafnasvæði Zargorsk-verksmiðjunnar í bænum Sergjev Posad, norðaustur af Moskvu. AP

Mikil sprenging varð á athafnasvæði verksmiðju sem framleiðir sjóntæki fyrir rússneska herinn nærri Moskvu í dag. Á fimmta tug manna eru slasaðir, þar af sex alvarlega. Orsakir sprengingarinnar liggja ekki fyrir að svo stöddu.

Sprengingin varð í vöruhúsi þar sem flugeldar voru geymdir á athafnasvæði Zagorsk-verksmiðjunnar, um 65 kílómetra norðaustur af Moskvu í dag. Rúður í nærliggjandi íbúðarblokkum splundruðust við hvellinn og svæðið í kring var rýmt. Fjörutíu og fimm slösuðust í sprengingunni, að sögn Andrei Vorobjov, ríkisstjóra Moskvuhéraðs.

AP-fréttastofan segir að verksmiðjan framleiði meðal annars ýmis konar sjóntæki sem rússneskar öryggissveitir nota. Vorobjov neitaði því og fullyrti að verksmiðjan framleiddi aðallega flugelda. Á vefsíðu fyrirtækisins er þó fullyrt að það framleiði enn sjóntæki.

Rússneskir embættismenn fullyrtu fyrr í dag að loftvarnarkerfi landsins hefði skotið niður tvo dróna sem stefndu á Moskvu í nótt. Héldu þeir því fram að Úkraínumenn hefðu sent þá til þess að gera árás á rússnesku höfuðborgina. Úkraínumenn tjáðu sig ekki um ásakanir Rússa en þeir hafa hvorki viljað staðfesta né hafna að þeir hafi staðið að sambærilegum drónaferðum yfir Rússlandi á undanförnum vikum.

Reuters-fréttastofan hefur eftir rússnesku TASS-ríkisfréttastofunni að viðbragðsaðilar telji ekki að sprengingin í Zagorsk-verksmiðjunni hafi orðið að völdum úkraínsks dróna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×