„Stutta svarið er að Covid heldur áfram að gera okkur lífið leitt. Veiran er greinilega bráðsmitandi og fer hratt yfir þegar hún berst inn á annað borð,“ segir Hildur Helgadóttir, formaður farsóttanefndar Landspítala, í skriflegu svari við fyrirspurn Vísis.
Hildur segir veiruna áfram valda talsverðum veikindum hjá þeim sem eru viðkvæmir vegna undirliggjandi sjúkdóma. Þá hafi starfsfólk tekið eftir því að hún valdi heilmiklum veikindum hjá hraustu starfsfólki í yngri kantinum.
„Ekki þannig að hafi komið til innlagna en þau verða ansi lasin og óvinnufær í nokkra daga.
Við höldum ekki lengur bókhald yfir fjölda smita en við höfum verið með ca 10-15 á hverjum tíma inniliggjandi og faraldur á einum 5-6 legudeildum.“
Hildur segir veiruna berast á spítalann úr öllum áttum. Þetta sé áfram snúið viðfangsefni þrátt fyrir hásumar og góða tíð.
„Ferðamenn er drjúgir, einnig þeir sem eldri eru og þurfa að leita á bráðamóttöku og svo kemur þetta að sjálfsögðu inn með heimsóknargestum og starfsmönnum.“