Andri Þór Björnsson og Hákon Örn Magnússon, báðir úr GR, eru efstir þegar þetta er skrifað á -4 höggum, eftir 17 og 16 holur. Andri fékk heila fimm fugla á fyrri níu holunum en hefur ekki alveg náð að fylgja því eftir á seinni hlutanum.
Af þeim sem komnir eru í hús er Jóhannes Guðmundsson efstur á -3 höggum. Hann fékk sjö fugla á hringnum en einnig tvöfaldan skolla og tvo skolla. Guðmundur Rúnar Hallg´rimsson og Logi Sigurðsson luku deginum á -2 höggum, líkt og atvinnumaðurinn Guðmundur Ágúst Kristjánsson hefur leikið fyrstu 15 holurnar á.
Íslandsmeistarinn frá því í fyrra, Kristján Þór Einarsson, er hins vegar í 35. sæti á +3 höggum eftir 15 holur, eftir að hafa fengið tvöfaldan skolla á fimmtándu holunni.
Hjá konunum er engin búin með fyrsta hring en toppbaráttan jöfn og spennandi. Hulda Clara Gestsdóttir og Ragnhildur Kristinsdóttir hafa leikið best eða á -1 höggi, eftir 15 holur.
Guðrún Brá Björgvinsdóttir er á pari eftir sama holufjölda, eftir að hafa fengið þrjá skolla á fyrri níu holunum en svo fugla á 11., 14. og 15. holu.