Viðskipti innlent

Annar stærsti júlí frá upp­hafi mælinga

Eiður Þór Árnason skrifar
Fjöldi ferðamanna á Íslandi nálgast fyrra metár.
Fjöldi ferðamanna á Íslandi nálgast fyrra metár. Vísir/Vilhelm

Brottfarir erlendra farþega frá Íslandi um Keflavíkurflugvöll voru um 275 þúsund í júlí samkvæmt nýrri talningu Ferðamálastofu. Það er annar stærsti júlímánuður frá því mælingar hófust en tvær af hverjum fimm brottförum voru tilkomnar vegna Bandaríkjamanna.

Alls hafa um 1,2 milljónir erlendra farþega farið frá Íslandi um Keflavíkurflugvöll frá áramótum sem nemur 41,9% fjölgun miðað við sama tímabil í fyrra. Fjöldinn það sem af er ári, frá janúar út júlí 2023 er um 94% af brottförum á sama tímabili metárið 2018.

Þetta kemur fram á vef Ferðamálastofu. Brottfarir Íslendinga voru um 70.600 í júlí eða 8,2% fleiri en þær mældust í sama mánuði í fyrra. Frá áramótum hafa brottfarir Íslendinga mælst um 364 þúsund talsins eða 93,5% af því sem þær mældust á sama tímabili árið 2018, sem var metár í ferðum Íslendinga.

Þjóðverjar fylgja langt á eftir

Líkt og fyrr segir voru Bandaríkjamenn stærsta þjóðerni ferðamanna í júlí og voru brottfarir þeirra tæplega 114 þúsund talsins, eða sem nemur 41,3% af heild. Bandaríkjamenn hafa verið stærsta þjóðernið í júlímánuði allt frá árinu 2011. Brottfarir Þjóðverja voru í öðru sæti í júlí síðastliðnum, 22 þúsund talsins eða 8,0% af heild.

Brottfarir Pólverja voru í þriðja sæti eða 7,4% af heild og Frakka í því fjórða (4,9%). Þar á eftir fylgdu Bretar (4,0%), Ítalir (3,1%), Danir (2,8%), Kanadamenn (2,7%), Spánverjar (2,2%) og Hollendingar (1,8%).






Fleiri fréttir

Sjá meira


×