Sjöunda jafntefli Chelsea og Liverpool í röð

Siggeir Ævarsson skrifar
Axel Disasi skoraði í sínum fyrsta leik fyrir Chelsea.
Axel Disasi skoraði í sínum fyrsta leik fyrir Chelsea. Vísir/Getty

Chelsea tók á móti Liverpool í fyrsta stórleik tímabilsins á Englandi í dag. Leikurinn var ansi fjörugur þar sem boltinn rataði fjórum sinnum í netið en sitthvort markið var dæmt af liðunum vegna rangstöðu.

Luis Díaz kom Liverpool yfir í upphafi leiks eftir laglegan undirbúning frá Salah. Nokkrum mínútum seinna var Salah svo aftur á ferðinni og skoraði sjálfur en markið réttilega dæmt af vegna rangstöðu.

Chelsea menn létu þessa byrjun engan veginn slá sig útaf laginu og jöfnuðu á 37. mínútu þar sem Axel Disasi var réttur maður á réttum stað eftir að Liverpool tókst ekki að hreinsa hornspyrnu almennilega frá.

Chelsea skoraði svo annað mark nánast strax í kjölfarið þar sem vörn Liverpool virtist vera steinsofandi en Chilwell var rækilega rangstæður.

Seinni hálfleikurinn var markalaus en fjörugur og virðast liðin bæði koma vel undan sumri. Þetta var sjöunda viðureign þessara liða í röð sem endar með jafntefli.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira