Fótbolti

Roberto Mancini hættur með ítalska landsliðið

Siggeir Ævarsson skrifar
Roberto Mancini kveður ítalska landsliðið, tíu mánuðum fyrir EM 2024
Roberto Mancini kveður ítalska landsliðið, tíu mánuðum fyrir EM 2024 Christian Charisius/picture alliance via Getty Images

Roberto Mancini, þjálfari ítalska landsliðsins í knattspyrnu, hefur sagt starfi sínu lausu. Mancini stýrði liðinu til Evrópumeistaratitils 2020 en náði svo ekki að koma liðinu á lokakeppni HM 2022.

Mancini tók við liðinu 2018 eftir að Gian Piero Ventura tókst ekki að tryggja Ítalíu á lokakeppni HM 2018. Við tók ákveðið uppbyggingartímabil þar sem margar af reyndustu stjörnum Ítala lögðu landsliðsskóna á hilluna. Mancini tókst að blása lífi í liðið á ný og má segja að hápunktinum hafi verið náð á EM 2020 þar sem liðið lagði England í úrslitaleiknum eftir vítaspyrnukeppni.

Árið 2022 var Ítalía annað heimsmeistaramótið í röð ekki á meðal þeirra þjóða sem tóku þátt í lokakeppninni. Mancini hélt þó starfi sínu en hefur nú ákveðið að segja þetta gott og hefur sagt starfi sínu lausu. Hann stýrði liðinu alls í 61 leik, vann 37, tapaði 15 og gerði níu jafntefli.

Ítalíu situr í 8. sæti heimslistans og í þriðja sæti C-riðlis í undankeppni EM en liðið hefur leikið tvo leiki í riðlinum. Ítalska knattspyrnusambandið sagði í yfirlýsingu að eftirmaður Mancini yrði kynntur á næstu dögum. Luciano Spalletti hefur verið orðaður við starfið en hann er í árs hvíldarleyfi frá störfum sínum hjá Napólí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×