Enski boltinn

Nýi fram­herji Manchester United meiddur í baki

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rasmus Winther Højlund skrifar undir draumasamninginn við Manchester United.
Rasmus Winther Højlund skrifar undir draumasamninginn við Manchester United. @manchesterunited

Manchester United eyddi stórum fjárhæðum í danska landsliðsframherjann Rasmus Höjlund á dögunum en hann mun þó ekki hjálpa liðinu í fyrsta leiknum í ensku úrvalsdeildinni á þessu tímabili.

Manchester United mætir Úlfunum í kvöld í lokaleik fyrstu umferðar en hinn tvítugi Höjlund verður ekki í búning. Það er enn óljóst hvenær Daninn spilar sinn fyrsta leik fyrir United.

„Við erum ekkert að flýta okkur með hann,“ sagði Erik ten Hag, knattspyrnustjóri Manchester United, á blaðamannafundi fyrir leikinn.

United borgaði Atalanta 64 milljónir punda fyrir hann en sú upphæð gæti hækkað upp í 72 milljónir punda með árangurstengdum bónusum sem jafngilda meira en tólf milljörðum íslenskra króna.

„Við vitum að við erum líka með sterkt lið án hans og það eru menn í hans stöðu þannig að það er engin ástæða til að reka á eftir þessu. Þetta snýst um að hann sé á réttum stað, kominn í gott form og þá förum við að taka hann inn. Við munum taka okkar tíma,“ sagði Ten Hag.

„Þetta snýst ekki um að vinna í dag heldur um að vinna langhlaupið,“ sagði Ten Hag.

Þangað til að Höjlund er klár þá er búist við því að Marcus Rashford spili sem fremsti maður.

„Ég er rólegur og yfirvegaður í þessari stöðu því Rashy er mjög góður sem framherji eins og við höfum séð. Anthony Martial er líka í boði og svo höfum við Jadon Sancho sem stóð sig vel á undirbúningstímabilinu,“ sagði Ten Hag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×