Enski boltinn

„Algjört grín“ og „vandræðalegt“ fyrir Liverpool

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
 Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, fær ekki leikmaninn sem hann þarf á að halda aftarlega á miðju liðsins.
 Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, fær ekki leikmaninn sem hann þarf á að halda aftarlega á miðju liðsins. Getty/Chris Brunskill

Jamie Carragher og Gary Neville ræddu klúður Liverpool á leikmannamarkaðnum á Sky Sports en leikmenn sem Liverpool vill kaupa og eru tilbúnir að borga fyrir, vilja hreinlega ekki koma til Liverpool.

Jamie Carragher er náttúrulega harður Liverpool maður en hann var ómyrkur í máli þegar hann ræddi síðustu sólarhringa hjá félaginu.

„Liverpool hefur ekki náð að koma þessu yfir línuna og þetta hefur verið vandræðalegt allt saman,“ sagði Jamie Carragher.

„Sú staðreynd að þú byrjir á að elta Lavia en ert ekki tilbúinn að borga uppsett verð fyrir hann. Svo skipta menn um stefnu og fara að eltast við Caicedo,“ sagði Carragher sem vildi ekki gagnrýna eigendur Liverpool af því að þeir voru tilbúnir að borga 110 milljónir punda fyrir hann.

„Að reyna við Caicedo þegar hann er búinn að vera að tala við Chelsea í þrjá mánuði. Nú snúa þeir sér aftur að Lavia. Þetta er algjör klúður og algjör grín,“ sagði Carragher.

Gary Neville, sem er Manchester UnNited maður, var mjög hissa á því að sjá Liverpool gera slík mistök og að missa stjórn á atburðarásinni er ekki líkt því sem við sjáum vanalega á Anfield.

„Að þeir skuli leyfa Milner, Henderson og Fabinho fara áður en þeir fundu menn í staðinn er mjög ólíkt Liverpool sem mér hefur alltaf fundist vera mjög skynsamir á markaðnum. Þeir hafa vanalega gengið frá sínum málum áður en allt kemur fram í dagsljósið,“ sagði Gary Neville.

Neville taldi Liverpool missa stjórnina á miðjunni í leiknum á móti Chelsea af því að liðinu vantaði tilfinnanlega öflugan mann aftast á miðjuna.

„Liverpool þarf að glíma við stórt vandamál núna og þeir munu panikka á leikmannamarkaðnum á næstu þremur vikum,“ sagði Gary Neville.

Það má sjá þá félaga ræða stöðuna hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×