Menning

Ekki verði skrúfað fyrir fjár­fram­lög fyrr en fram­tíðin er mótuð

Máni Snær Þorláksson skrifar
Lilja Dögg Alfreðsdóttir er menningar- og viðskiptaráðherra. Fram kemur í tilkynningu frá ráðuneyti hennar að fjárframlögum til Íslensku óperunnar verði ekki hætt fyrr en búið er að móta framtíðina.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir er menningar- og viðskiptaráðherra. Fram kemur í tilkynningu frá ráðuneyti hennar að fjárframlögum til Íslensku óperunnar verði ekki hætt fyrr en búið er að móta framtíðina. Vísir/Vilhelm

Menningar- og viðskiptaráðuneytið segir að fjárframlögum til Íslensku óperunnar verði ekki hætt áður en búið verður að móta framtíð óperustarfsemi á landinu. Íslenska óperan birti í dag áskorun til ríkisstjórnarinnar þar sem kom fram að stofnunin neyðist til að hætta starfsemi vegna niðurskurðar.

Íslenska óperan birti í dag áskorun til ríkisstjórnarinnar. Þar sagði að Íslensku óperunni hafi verið tilkynnt að rekstrarframlögum til stofnunarinnar verði hætt áður en búið sé að móta framtíð íslenskrar óperustarfsemi.

Í tilkynningu frá menningar- og viðskiptaráðuneytinu kemur fram að svo sé ekki. Ráðuneytið hafi átt í nánu samtali við forsvarsmenn Íslensku óperunnar um fjármögnun hennar í ár og á næsta ári. Búið sé að tryggja fjárframlög til stofnunarinnar á þessum árum.

Fjárframlögin séu til þess að koma til móts við skuldbindingar og standa straum af kostnaði við uppsetningu á verkinu Agnes sem sýna á haustið 2024. Áætlað sé að fjárframlög til stofnunarinnar nemi samtals 334 milljónum króna á tímabilinu.

„Þannig hefur Íslensku óperunni ekki verið tilkynnt að fjárframlögum til hennar verði hætt áður en búið er að móta framtíð óperustarfsemi á landinu líkt og fram kemur í áskorun stjórnar hennar til ríkisstjórnarinnar,“ segir í tilkynningunni.

Einnig kemur fram að á næstunni verði auglýst eftir verkefnisstjóra til að sjá um undirbúning að stofnun þjóðaróperu. 

„Áfram verður unnið að því hvaða sviðsmynd að þjóðaróperu yrði líklegust til árangurs í íslenskum aðstæðum. Á sama tíma er til skoðunar í menningar- og viðskiptaráðuneyti hvernig hægt er að auka stuðning við grasrótarstarfsemi tengdri óperu.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×