Menning

„Við erum ekki að biðja um neina aukningu“

Máni Snær Þorláksson skrifar
Steinunn Birna segir að Íslenska óperan þurfi á óskertum framlögum að halda til að geta starfað áfram.
Steinunn Birna segir að Íslenska óperan þurfi á óskertum framlögum að halda til að geta starfað áfram. VISIR/VILHELM/ÍSLENSKA ÓPERAN

Óperustjóri Íslensku óperunnar segir stofnunina ekki vera að biðja um meira en hún hefur áður fengið. Upphæð sem menningar- og viðskiptaráðuneyti nefndi í gær sé misvísandi og dugi ekki til að halda rekstrinum gangandi.

Íslenska óperan sendi í gær áskorun á ríkisstjórnina þar sem fram kom að stofnunin muni neyðast til að hætta starfsemi vegna niðurskurðar. Íslenska óperan sagði að skrúfa eigi fyrir rekstrarframlög til stofnunarinnar áður en framtíð íslenskrar óperustarfsemi væri fullmótuð.

Menningar- og viðskiptaráðuneytið sendi í kjölfarið út tilkynningu og sagði að svo væri ekki. Búið væri að tryggja fjárframlög til stofnunarinnar í ár og á næsta ári. Áætlað sé að fjárframlög til óperunnar nemi samtals 334 milljónum króna á tímabilinu.

Í dag sendi Íslenska óperan út áréttingu þar sem fram kom að þessar 334 milljónir dugi ekki til að halda stofnuninni starfandi. 

Steinunn Birna Ragnarsdóttir óperustjóri segir í samtali við fréttastofu að upphæðin sem ráðuneytið nefndi sé mjög misvísandi. Bróðurparturinn af henni hafi þegar verið greiddur fyrir starfsemi þessa árs. Þá sé verkefnastyrkur fyrir uppsetningu á óperunni Agnesi lagður saman við upphæðina.

„Það er augljóst að það er ekki hægt að halda stofnuninni gangandi og hennar starfsemi fyrir þá upphæð sem ætluð er til þessa eina verkefnis. Það mun óhjákvæmilega hafa í för með sér að hún leggst af sem við teljum mikið menningarslys og vanhugsað.“

Þurfa tvö hundruð milljónir á ári

Til þess að hægt sé að halda Íslensku óperunni gangandi þurfi stofnuninn á óskertu framlagi að halda. Það eru í kringum tvö hundruð milljónir á ári samkvæmt Steinunni. Það sé ekki stór upphæð þegar tekið er mið af framlagi Íslensku óperunnar.

„Við erum að nýta það fjármagn mjög vel. Sambærilegar óperustofnanir erlendis hafa tvöfalt eða þrefalt þá upphæð fyrir svipaða starfsemi. Það er augljóst að ef stofnunin verður þjóðarópera að það þarf margfalt meira fjármagn til þess að slík stofnun geti starfað og þá þarf það að vera fyrir hendi. Við töldum að það væri stefnan að það héldist í hendur, að Íslenska óperan fengi að starfa þangað til þjóðarópera myndi taka við. En með þessu móti verður löng eyða í starfseminni sem er mjög slæmt.“

Steinunn segir að stofnunin sé ekki að biðja um hærri upphæð en áður.

„Við þurfum bara að halda því sem við höfðum, við erum ekki að biðja um neina aukningu. Við erum bara að biðja um að ráðuneytið haldi stofnuninni lifandi þangað til þessi þjóðarópera, sem við vitum ekki hvar er stödd því okkur hefur hreinlega ekki verið sagt það, tekur við.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.