Skoðun

Afl til allra átta

Ingibjörg Isaksen skrifar

Margs konar tækifæri og áskoranir fylgja aukinni ferðaþjónustu. Áherslur hafa breyst og uppbygging hefur á sér ýmsar myndir líkt og fjölbreytt verkefni hringinn í kringum landið bera með sér. Við getum nú skoðað fleiri minjar, höfum aðgengi að nýjum stöðum og aðkoma að dýrmætum náttúruperlum hefur bæst til muna. Ásamt þessu hefur aðstaða fyrir gesti aldrei verið betri.

Mikilvægt er að brugðist sé við óskum um innspýtingu vegna uppbyggingar efnislegra innviða á ferðamannastöðum í kjölfar mikillar fjölgunar ferðamanna. Frá árinu 2018 hefur yfir 4,7 milljörðum verið veitt úr landsáætlun til uppbyggingar í fjölmörgum verkefnum. Því fjármagni hefur verið skipt á um 170 staði um allt land. Umsjónaraðilar hafa unnið vel að því undirbúa svæðin betur svo þau geti tekið á móti þeim aukna gestafjölda sem framtíðin ber í skauti sér. Það er því gott að sjá að gert er ráð fyrir um 2,7 milljarða króna framlagi til næstu þriggja ára, en betur má ef duga skal.

Mikilvægt fjármagn

Þann 11. ágúst sl. bárust fréttir frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu um að 908 milljónum króna yrði úthlutað úr Landsáætlun til uppbyggingar innviða á þessu ári skv. úthlutun fjármuna til uppbyggingar innviða og náttúruverndar á ferðamannastöðum. Fjármagnið veitir mikilvæg tækifæri til að setja fram markmið um stýringu og sjálfbæra þróun, vernd náttúru og menningarsögulegra minja, eflingu öryggis, skipulag og hönnun við ferðamannastaði. Hins vegar er þörf á endurskoðun á skiptingu þess milli landshluta.

Þörf á jafnri skiptingu

Þegar litið er til úthlutunar fjármagns úr Landsáætlun eftir landshlutum kemur í ljós að veruleg misskipting er milli landsvæða. Bróðurpartur fjármagnsins, 71%, hefur farið í eina átt, þ.e. til Suðurlands. Þetta er annað árið í röð sem meirihluti fjármagnsins er úthlutað til Suðurlands. Árið 2022 fór rétt um 50% af 908 milljónum króna í verkefni tengd uppbygginu innviða á Suðurlandi.

Barist er fyrir stöndugri ferðaþjónustu um allt land, en á mörgum stöðum er nauðsynlegt að frekari uppbygging innviða eigi sér stað á fjölförnum stöðum svo að það gangi upp. Það á við á allri landsbyggðinni þar sem auðlindir eru víða og tækifæri í ferðaþjónustu eru fjölmörg en að mörgu leyti vanýtt. Tenging milli úthlutunarinnar og stefnu stjórnvalda um dreifingu ferðamanna er ekki auðsýnileg. Sérstaklega ekki þegar kemur að þeim verkefnum, sem finnast um land allt og kalla á frekari uppbyggingu. Fjölmörg verkefni bíða okkar og ákallið kemur úr öllum áttum. Það skiptir sköpum að fjármunir séu nýttir með þeim hætti að þeir efli spennandi uppbyggingu í öllum landshlutum á jafnan máta.

Samfélagið, þingmenn og ráðherrar þurfa að átta sig á að misskipting fjármagns á milli landshluta af þessu tagi ýtir sannarlega ekki undir það markmið að allir hafi jöfn tækifæri óháð búsetu.

Þarna þurfum við að gera betur.

Höfundur er þingflokksformaður Framsóknar og 1. þingmaður NA-kjördæmis.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×