Enski boltinn

Segir að frammistaða 115 milljóna punda mannsins hafi verið martröð líkust

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ferill Moises Caicedo hjá Chelsea fór ekki vel af stað.
Ferill Moises Caicedo hjá Chelsea fór ekki vel af stað. getty/Sebastian Frej

Frammistaða Moisés Caicedo í fyrsta leik sínum fyrir Chelsea var martröð líkust. Þetta segir Jamie Carragher, sparkspekingur á Sky Sports.

Chelsea keypti Caicedo fyrir hvorki meira né minna en 115 milljónir punda frá Brighton sem gerir hann að dýrasta leikmanni Bretlandseyja frá upphafi.

Ekvadorinn kom inn á sem varamaður á 61. mínútu þegar Chelsea sótti West Ham United heim í 2. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í gær.

Caicedo átti erfitt uppdráttar í leiknum og fékk á sig vítaspyrnu í uppbótartíma sem Lucas Paquetá skoraði úr og gulltryggði sigur West Ham, 3-1.

„Frammistaða Caicedos síðan hann kom inn á hefur verið martröð líkust. Þetta var léleg og letileg tækling,“ sagði Carragher sem lýsti leiknum á Sky Sports.

Chelsea er með eitt stig eftir fyrstu tvo leiki sína í ensku úrvalsdeildinni. Næsti leikur liðsins er gegn nýliðum Luton Town á föstudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×