Innlent

Seg­ir rann­sókn­ar­hags­mun­i fyr­ir löng­u gæsl­u­varð­hald­i ekki til stað­ar

Samúel Karl Ólason skrifar
Maðurinn hefur verið í gæsluvarðahaldi frá 27. apríl.
Maðurinn hefur verið í gæsluvarðahaldi frá 27. apríl. Vísir

Lögmaður mannsins sem grunaður er um að hafa myrt konu á Selfossi í apríl gagnrýnir hve lengi hann hefur setið í gæsluvarðhaldi. Maðurinn var úrskurðaður í gæsluvarðhald þann 27. apríl, sama dag og kona á þrítugsaldri fannst látin í húsi á Selfossi.

Maðurinn og yngri bróðir hans voru handteknir en þeim yngri var fljótt sleppt. Í frétt Ríkisútvarpsins segir að eldri bróðirinn sé grunaður um að hafa kyrkt konuna.

Gæsluvarðhald mannsins var síðast framlengt út þennan mánuð og byggði krafa lögreglunnar um framlengingu þá á grundvelli brýnna rannsóknarhagsmuna, samkvæmt Sveini Kristjáni Rúnarssyni, yfirlögregluþjóni á Suðurlandi.

Sjá einnig: Vonast eftir niðurstöðu krufningar um mánaðamótin

Í lögum um meðferð sakamála segir að ekki megi halda mönnum í gæsluvarðhaldi lengur en í tólf vikur nema brýnir rannsóknarhagsmunir krefjist þess eða mál hafi verið höfðað gegn honum. Þeir geti verið að ætla megi að sakborningur muni gera rannsókn erfiðari.

Í frétt Ríkisútvarpsins er haft eftir Vilhjálmi H. Vilhjálmssyni, verjanda mannsins, að hann óttist að úrskurðir dómstóla um framlengingar gæsluvarðhaldsins verði fordæmisgefandi og að tólf vikna reglan heyri sögunni til. Hann segir enga brýna rannsóknarhagsmuni til staðar sem skjólstæðingur hans geti haft áhrif á.

Þá segir í fréttinni að maðurinn sé grunaður um að hafa kyrkt konuna en hann haldi því fram að hann hafi komið að henni látinni á baðherbergisgólfinu.


Tengdar fréttir

Brýnir hagsmunir halda þeim grunaða á Selfossi bak við lás og slá

Lögreglustjórinn á Suðurlandi gerði í dag enn einu gæsluvarðhaldskröfuna fyrir héraðsdómi yfir manni sem grunaður er um manndráp. Maðurinn var handtekinn 27. apríl síðastliðinn en krafan er lögð fram á grundvelli brýnna rannsóknarhagsmuna þar sem endanleg niðurstaða krufningar liggur ekki fyrir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×