Innlent

María Rut snýr aftur til Þorgerðar

Jón Þór Stefánsson skrifar
María Rut Kristinsdóttir.
María Rut Kristinsdóttir. Aðsend

María Rut Kristinsdóttir mun snúa aftur sem aðstoðarmaður Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, formanns Viðreisnar. Síðasta ár hefur hún starfað sem kynningarstýra UN Women, en þar á undan var hún aðstoðarmaður Þorgerðar í fjögur ár.

María greinir sjálf frá þessu á Facebook-síðu sinni, en hún segir tíma komin á að „stíga aftur inn á skemmtilegasta völlinn,“

Jafnframt segist hún spennt að taka aftur við þessu fyrra hlutverki sínu, sem hún segir að hafi verið ákveðið snemma á þessu ári en síðustu mánuðum hefur hún varið í fæðingarorlofi.

„Og ég er sannfærð um að erindi Viðreisnar hafi sjaldan verið mikilvægara en akkúrat núna. Með fjórtándu vaxtahækkuninni sem bítur okkur öll, óreiðunni í ríkisfjármálunum, biðlistum í allri grunnþjónustu, vaxandi pólaríseringu og sundrungu. Þar þurfum við Viðreisn, sterka Viðreisn,“ segir hún í færslu sinni.

María Rut skipaði þriðja sæti á lista Viðreisnar í Reykjavíkurkjördæmi suður í síðustu þingkosningum. María Rut hefur áður verið formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands, talskona Druslugöngunnar og varaformaður Samtakanna ’78. Hún útskrifaðist árið 2013 með B.S. gráðu í sálfræði frá Háskóla Íslands og árið 2018 með diplóma í opinberri stjórnsýslu frá sama skóla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×