Hin sextán ára gamla Bergrós var eini Íslendingurinn sem komst á verðlaunapall á heimsleikunum í ár en hún tryggði sér þriðja sætið í flokki sextán til sautján ára stelpna.
Blaðamaður Morning Chalk Up ræddi við hina stórefnilegu Bergrós og fjallaði um baráttu hennar við Wisconsin sólina.
Þar er farið sérstaklega yfir aðra greinina þar sem Bergrós fékk hitaslag og hneig niður í miðri keppni. Hún var borin af velli af læknaliði leikanna.
„Þetta tók mikinn líkamlegan og andlegan toll af mér og var enn eitt prófið á þrautseigju mína,“ sagði Bergrós í viðtalinu.
Bergrós fékk góða aðstoð frá læknaliðinu og tókst að koma sér aftur á lappir. „Þrátt fyrir þetta áfall og krefjandi æfingar þá var ég staðráðin að láta þetta ekki stoppa mig,“ sagði Bergrós.
Bergrós meiddist líka á baki á heimsleikunum árið áður og var þá frá keppni í nokkra mánuði. Hún komst í gegnum það og sannaði enn á ný hversu andlega sterk hún er.
„Ég var svo stolt af því að ég náði að fá laun fyrir allt erfiðið. Ég var stolt af sjálfri mér fyrir að komast í gegnum allt mótlætið sem varð á vegi mínum,“ sagði Bergrós.
Bergrós segir líka frá því að hún æfir í CrossFit Reykjavik þrátt fyrir að búa á suðurlandinu.
Hún ferðast því í tvo tíma á dag til að geta æft þar. Hún segir að það sé þess virði að fá tækifæri til að æfa með þeim bestu í íþróttinni og fá að læra af þeim. Gott dæmi um það þegar hún og Anníe Mist Þórisdóttir kepptu saman á Reykjavíkurleikunum í vetur.
