„Málið er til rannsóknar, meðal annars er beðið niðurstöðu úr eiturefnagreiningu í kjölfar krufningar á tveimur hundanna,“ segir Kristján Ólafur Guðnason, yfirlögregluþjónn hjá Lögreglunni á Austurlandi. Kristján býst við því að þessi greining og rannsókn standi yfir í tvær til þrjár vikur til viðbótar.
Hundarnir tíu, sem eru af tegundunum Husky og Border Collie, fundust dauðir í gerði við bæinn þann 8. júlí síðastliðinn. Eigandinn, hundaþjálfarinn Askur Bárðdal Laufeyjarson, sagðist enga áverka hafa fundið á þeim eftir að hann sneri heim úr fimm tíma bílferð. Tvö hræin voru kæld og flutt til rannsóknar á tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum.
Dýralækna sem Askur ræddi við greindi á um hugsanlegar dánarorsakir. Sumir töldu eitrun koma til greina, eða þá hugsanlega rafmagn eða jafn vel gas.
Mikið tilfinningalegt og fjárhagslegt tjón
Askur greindi frá miklu tilfinningalegu tjóni og áhrifum sem atburðurinn hefði haft á hann. Þá er ljóst að fjárhagslegt tjón hleypur á milljónum króna.
Sigurborg Daðadóttir, yfirdýralæknir hjá Matvælastofnun, sagðist ekkert botna í þessum skyndilega hundadauða. Enginn grunur væri um sjúkdóm. Málið ætti sér engin fordæmi hér á Íslandi.